22/12/2024

Vandræði með flutninga á sláturfé

"Í dag átti að sækja sláturfé að Bassastöðum og Gautshamri á 380 kinda vagni frá sláturhúsinu á Hvammstanga, en eftir veðurspána í gærkvöldi var þessari ferð aflýst. Held ég að bæði bændur og flutningsaðilar hafi verið einhuga um að tefla ekki á tvær hættur með flutning á lifandi fé í því veðri sem spáð var". Þetta segir Guðbrandur Sverrisson bóndi á Bassastöðum á Steingrímsfirði en bændur í Árneshreppi voru óánægðir með Vegagerðina fyrir að opna ekki veginn norður í Árneshrepp til að sækja þangað sláturfé sem var tilbúið til flutnings. "Í morgun í skaplegu veðri lagði svo minni bíll af stað frá Hvammstanga og var líklega í upphafi ætlað að sækja fé í Árneshrepp, en fékk fljótlega upplýsingar um að vegurinn norður yrði ekki opnaður svo þá var ákveðið að taka féð á Gautshamri í staðinn", segir Guðbrandur.  

"Veður á leiðinni var nokkuð skaplegt þar til komið var að Grænanesi í Steingrímsfirði. Þar var mikið hvassviðri eins og oft verður í norðanátt og var tvísýnt hvort bíllinn næði inn á Selárbrúna eða fyki fram af kantinum. Þessir bílar eru með mikla yfirbyggingu sem tekur veður gríðarlega mikið á sig, því er nauðsynlegt að fara að öllu með gát í svona veðurham eins og var í dag hér fram úr Selárdalnum og muna að farmurinn er ennþá lifandi  þótt síðar sé honum ætlað að verða steik á diskum landsmanna", segir Guðbrandur og heldur áfram. "Þrátt fyrir að svona hret skapi óþægindi, þá er þetta hvorki fyrsta né versta hret sem við Strandamenn höfum orðið að takast á við og ólíklega það síðasta. En eins og einhver sagði, þá hefur ekki enn komið það él að ekki hafi stytt upp aftur og því horfum við bara glöð fram á veginn og búumst við að vakna við betri tíð, ef ekki á morgun, þá kannski hinn."   

"Á Bassastöðum eru öll lömb á húsi og er bara einfaldlega gefið, því út eiga þau ekki erindi í svona hrakviðri", segir Guðbrandur Sverrisson bóndi á Bassastöðum að lokum.