23/12/2024

Vandað þjónustunámskeið fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu framundan

Ferðamálasamtök Vestfjarða í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða standa fyrir vönduðu þjónustunámskeiði í lok maí, ef næg þátttaka næst. Talsvert hefur verið um fyrirspurnir frá ferðaþjónustunni um námskeið en því miður ekki alltaf tekist að halda þau vegna þátttökuleysis þegar upp hefur staðið. Vonast er til að í þetta sinn takist að halda þjónustunámskeið og stefnt að því að það verði á Hótel Núpi í Dýrafirði. Að námi loknu eiga þátttakendur að hafa betri forsendur til að taka að sér flóknari verkefni, vera sjálfstæðir í starfi og færari um að bera ábyrgð á eigin símenntun. Námskeiðið stendur yfir virka daga á tímabilinu 20. til 28. maí og er kennt frá kl. 8:15 til 16:00.

Kennari er Sigurður Arnfjörð, framreiðslumeistari, MBA og hótelhaldari á Núpi. Verð fyrir námskeiðið er 11.000 kr. Sérstakt rosa tilboð er til þeirra fyrirtækja sem vilja senda starfsfólk sitt frá öðrum svæðum Vestfjarða, en gisting og eldunaraðstaða býðst þeim á 1. kr. pr. dag. Það er tilboð sem erfitt verður að toppa.

Náminu er ætlað að efla persónulega, faglega og almenna færni þess til að veita gæðaþjónustu og takast á við fjölbreytt úrlausnarefni í ferðaþjónustu. Í náminu er meðal annars fjallað um gildi ferðaþjónustu, grunnþætti í þjónustu, mismunandi þjónustuþarfir, þjónustulund og samskipti, vinnusiðfræði, hlutverk starfsmanna og verkferla á vinnustað. Hluti kennslunnar er verklegur þar sem farið verður í þrif og frágang herbergja og kennt að dúka veisluborð og setja viðeigandi borðbúnað.

Allar frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar og þar fer einnig skráning á námskeiðið fram. Smellið hér fyrir allar nánari upplýsingar. Hafið samband við Sigurð Atlason ef aðrar spurningar vaknar eða sérlegrar hvatningar er þörf í síma 897 6525 eða netfangið vestfirdir@gmail.com.