22/11/2024

Útlit fyrir spennandi söngkeppni

Siggi Villa jr. sigraði 2006Það ríkir gríðarleg stemming og mikil spenna hjá keppendum í Söngkeppni Café Riis og Braggans sem fram fer á laugardagskvöld. Framundan er risatónlistarveisla og síðast þegar af spurðist var keppendum heldur að fjölga. Kristín S. Einarsdóttir skellti sér í Braggann í fyrrakvöld og hitti nokkra keppendur að máli. Inga Emils er einn af reyndari karókíkeppendum Hólmavíkur. „Ég er búin að ákveða hvaða lag ég ætla að taka og stend og fell með því,“ sagði Inga um leið og hún snaraðist á sviðið og tók Simply the best með Tinu Turner. Heyrst hefur að ýmsir hafi boðist til að vera með henni í atriðinu og leika Ike Turner. Inga sagði jafnframt að Tinu-lúkkið yrði í lagi, nema hvað Tina væri ef til vill unglegri en hún.

Ásdís Jónsdóttir er einnig meðal reyndari keppenda, enda lætur hún sig sjaldnast vanta þar sem von er á að maður sé manns gaman.

Jón Halldórsson mætti fúslega í örstutt viðtal en fyrra lagið hans verður Þjóðsöngur Strandatröllanna, sem hann samdi að beiðni vélsleðamanna og má því reikna með að þeir flykkist um að kjósa sinn mann: „Ég hvet þá til að koma á staðinn.“ Margir þekkja lag Jóns, Strandamenn, og má kannski segja að þetta sé einhvers konar tröllaútgáfa af því lagi. Seinna lag Jóns þekkja flestir en það er Ég er kominn heim eftir Óðinn Valdimarsson.

Keppnin fer fram á laugardagskvöldið. Bjarni Ómar Haraldsson sér um hljóðstjórn og kynnir verður Kristín Sigurrós Einarsdóttir. Fljótlega verður upplýst betur um aðra keppendur en ákveðið hefur verið að salurinn fái að kjósa sigurvegara.