22/12/2024

Útkallið gekk vel

KirkjubólEinar Indriðason er slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Hólmavíkur, en umráðasvæði þess nær yfir allan Hólmavíkurhrepp og einnig Broddaneshrepp. Einar og félagar hans í slökkviliðinu stóðu í ströngu í gærkvöldi þegar eldur varð laus innan veggjar í íbúðarhúsinu á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is náði tali af Einari í dag þar sem hann var staddur á Kirkjubóli að líta á vettvang brunans og spurði hann út í það hvernig starf slökkviliðsins hefði gengið.

Einar var fyrst spurður að því hvernig útkallið hefði gengið.

"Útkallið gekk vel að flestu leyti. Flestir sem voru kallaðir út voru mættir á slökkvistöðina aðeins 2-3 mínútum eftir að útkallið barst og fyrstu þrír slökkviliðsmennirnir komu að Kirkjubóli um fimmtán mínútum eftir útkall. Smá misskilnings gætti í meðförum neyðarlínunnar á upplýsingum en það mál var leyst fljótt og örugglega. Hins vegar kom upp vandamál með slökkviliðsbílinn sjálfan, en hann fór ekki í gang vegna rafmagnsleysiss. Því var kippt í liðinn en það tók hins vegar talsverðan tíma – slökkviliðsbíllinn kom á vettvang tæplega hálftíma eftir útkall."

Er bíllinn ekki nógu hentugur fyrir svona útköll?

"Jú, bíllinn er mjög góður slökkvibíll, búnaðurinn er mjög góður en það er verst hvað hann er hægfara. Slökkviliðið vantar nauðsynlega að eignast hraðskreiðari bíl til að geta sent menn á vettvang á undan slökkviliðsbílnum – nokkurs konar undanfarabíl með helsta búnað og forgangsljós. Þetta er eiginlega nauðsynlegt meðan slökkviliðsbíllinn er ekki hraðskreiðari. Í gær fóru þeir þrír sem voru á undan slökkviliðsbílnum á bíl sem er í eigu Hólmavíkurhrepps."

Hvað tóku margir þátt í útkallinu?

"Það voru um það bil tíu manns í allt sem fóru í útkallið. Megnið af hópnum fór síðan heim þegar slökkvistarfi var lokið í kringum níuleytið og þeir þrír síðustu fóru um klukkan tíu þegar það var orðið fulljóst að enginn glóð leyndist neins staðar í veggnum. Jón og Ester vöktuðu sjálf húsið í nótt með því að kíkja þangað nokkrum sinnum, en ég heimsótti vettvanginn aftur um tólfleytið í gær og síðan aftur snemma í morgun til að athuga stöðuna."

Einar sagði ennfremur við strandir.saudfjarsetur.is að hann væri ánægður með þá sem tóku þátt í slökkvistarfinu:

"Ég er mjög ánægður með viðbrögð þeirra Jóns, Esterar og Jóns Gísla. Þau brugðust hárrétt við öllu og björguðu því með snarræði að ekki varð miklu meira tjón. Ég er líka ánægður með þá staðreynd að slökkviliðsmenn á Hólmavík eru greinilega í góðri æfingu – menn vissu hvað þeir voru að gera."

Þess má að lokum geta að fólk í Hólmavíkurhreppi og Broddaneshreppi getur nálgast græjur eins og slökkvitæki, eldvarnarteppi, reykskynjara o.fl. með því að hringja í Einar í síma 861-4806.