05/10/2024

Úr gestakönnun Galdrasýningarinnar

Sigurður AtlasonAðsend grein: Sigurður Atlason

Í könnun sem lá frammi á Galdrasýningu á Ströndum í sumar voru gestir spurðir álits um nokkur atriði sem viðkom Galdrasýningunni og Ströndum sem viðkomustaðar. Í einni spurningunni sem var einungis beint til erlendra gesta var spurt hvort viðkomandi hefði komið til Íslands áður. Í ljós kom að 3/4 erlendra gesta sem heimsóttu Galdrasýninguna voru að koma til Íslands í fyrsta skipti.

Þessi niðurstaða skýtur skökku við þá almennu skoðun að erlendir ferðamenn komi ekki við á Vestfjarðahringnum í þeirra fyrstu heimsókn. Miðað við svör erlendra gesta Galdrasýningar á Ströndum þá er það algjörlega rangt og gefur öllum sem vinna að eflingu Stranda og Vestfjarða sem ferðamannasvæði ærið tilefni til að krefjast þess af Ferðamálaráði, sem blátt áfram hefur haldið öðru fram, að endurskoða þá tilhæfulausu skoðun og hætta að halda henni fram.

Það hlýtur einungis að skaða Strandir og Vestfirði sem ákjósanlegan viðkomustað þegar ferðamálayfirvöld vaða í villu með opinberar tölur og skoðanir.

Erlendir ferðamenn sem koma til landsins í fyrsta sinn á hverju ári eru margfaldlega fleiri en þeir sem koma í annað sinn eða oftar. Með því að halda tölum á lofti sem benda til þess að erlendir ferðamenn fari ekki á Vestfirði í þeirra fyrstu heimsókn getur beinlínis smitað ákvarðanir ferðamannanna að heimsækja ekki svæðið og skekkir þar með samkeppnisaðstöðu ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum.

Vefsíðu Strandagaldurs má finna hér.