22/11/2024

Upplýsingaskilti við Húsavíkurkleif

Á dögunum voru sett upp varanleg upplýsingaskilti á áningarstað við Húsavíkurkleif við Steingrímsfjörð á Ströndum. Á þeim er fjallað um Húsavíkurkleifina sjálfa sem er einn af merkustu fundarstöðum steingerfinga á Ströndum, íshúsið í Húsavík sem reist var þarna í víkinni laust fyrir aldamótin 1900 og loks er þar bréf til vegfarenda þar sem þeir eru boðnir velkomnir í ævintýralandið á Ströndum og hvattir til að umgangast náttúruna af virðingu.

Það voru bændur í Húsavík sem standa fyrir framtakinu og hafa einnig komið upp rekaviðarbrú yfir skurð í nágrenninu til að gera staðinn aðgengilegan fyrir þá sem vilja ganga gamla veginn upp Húsavíkurkleif og skoða staðinn. Gamla brúin í Kleifinni vekur nokkra athygli þeirra sem fara þarna um á tveimur jafnfljótum, en hún var steypt 1932. Borð og bekkir eru líka á staðnum fyrir þá sem vilja borða nestið sitt. Vegagerð ríkisins gerði útskotið við veginn og mun væntanlega merkja áningarstaðinn með viðeigandi skiltum fljótlega.

Sögusmiðjan á Kirkjubóli hafði umsjón með gerð upplýsingaskiltanna sem eru á þremur tungumálum – íslensku, ensku og þýsku.

Upplýsingaskiltin sóma sér í Húsavíkurkleifinni – ljósm. Jón Jónsson