15/05/2024

Upp kom ég með hanska og hatt

Íris Ellenberger flytur opinn fyrirlestur í Skelinni – lista- og fræðimannaíbúð Þjóðfræðistofu á Hólmavík á miðvikudagskvöld kl. 20:00. Fjallar hann um reynslu danskra innflytjenda af Íslandi og Íslendingum á 5.-7. áratug 20. aldar og ber titilinn Upp kom ég með hanska og hatt. Íris Ellenberger er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og leggur lokahönd á doktorsritgerð sína um efnahagslega og félagslega stöðu danskra innflytjenda á Íslandi á árunum 1900-1970.

Árið 1944 fékk Ísland formlegt sjálfstæði og sleit þar með aldalöngu stjórnmálasambandi við dönsku krúnuna. Sambandinu höfðu fylgt talsverðir fólksflutningar milli landanna og við upphaf 20. aldar bjó lítill en áhrifamikill hópur Dana á Íslandi. Þeir sem þann hóp skipuðu nutu jafnréttis á við Íslendinga í hvívetna og gátu því hreiðrað um sig innan valdamestu stétta landsins í krafti betri aðgangs að fjármagni, þekkingu og menntun samanborið við þorra innfæddra Íslendinga. En við lýðveldisstofnunina skertust réttindi nýaðfluttra Dana umtalsvert sem olli miklum breytingum á samsetningu og aðbúnaði hópsins.

Í erindinu verður sjónum beint að þeim Dönum sem fluttust til Íslands um og eftir síðari heimsstyrjöld. Fjallað verður um hvernig Ísland kom þessum einstaklingum fyrir sjónir, hvernig þeim tókst að búa sér til heimili á Íslandi, viðhalda dönskum siðum, læra Íslensku, eiga samskipti við heimamenn, samsama sig Íslendingum og verða samþykktir sem hluti af íslensku samfélagi. Þá verður einnig hugað að ástæðum þess að Danir missa völd í íslensku samfélagi en verða þess í stað eins og hver annar innflytjendahópur. Erindið er unnið upp úr viðtölum við 37 Dani sem búsettir eru á Íslandi. Leikin verða brot úr nokkrum viðtalanna.