Það var fríður og fjölmennur hópur keppenda sem keppti fyrir hönd HSS á landsmótinu á Laugum í Þingeyjarsýslu s.l. helgi. Líkt og undanfarin landsmót var um nána samvinnu að ræða milli Héraðssambands Strandamanna og Héraðssambands Vestur-Húnvetninga. Frá HSS fóru 34 keppendur á landsmót og 31 frá USVH. Mjög gaman var að sjá þann mikla fjölda sem fylgdi keppendum eftir en í tjaldbúðum HSS/USVH voru rúmlega 200 manns og myndaðist skemmtileg stemning í hinu stóra hátíðartjaldi USVH á kvöldin þegar allir komu saman og ræddu gengi liðin dags. Á laugardagskvöldið var síðan glæsilega grillveisla í boði KVH ehf og Fiskvinnslu Drangs á Drangsnesi.
Öll umgjörð mótsins var til fyrirmyndar og veður lék við keppendur fyrsta daginn, 25 stiga hiti og sólskin, og hélst síðan skaplegt til mótsloka. Árangur keppenda var í heildina góður og keppendur HSS voru eins og venjulega sér og sínum til sóma. Fjöldi krakka kepptu í frjálsum íþróttum, sundi, körfubolta og knattspyrnu.
Strandamenn áttu einn sigurvegara í frjálsum íþróttum en Guðjón Þórólfsson gerði sér lítið fyrir og sigraði í hástökki 13 ára með fádæma yfirburðum en hann stökk 1,63 m. Guðbjörg Júlía Magnúsdóttir nældi sér í tvenn silfurverðlaun, 50 og 100 m bringusund, og fékk síðan brons ásamt samsundkonum sínum hjá HSS í 4x50m fjórsundi. Nokkrar dömur hjá HSS fengu síðan silfurverðlaun í körfubolta stúlkna 15-18 ára.
Einnig er gaman að segja frá því að þátttaka unglinga úr Árneshreppi var 100% og að fyrsti keppandi HSS úr Hrútafirði kom og keppti með okkur á unglingalandsmóti. Munum þau orð að sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér. Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að þessu landsmóti, mótshöldurum, keppendum, foreldrum, þjálfurum og gestum fyrir frábært landsmót og vonandi verður þátttaka keppenda á vegum HSS/USVH jafn mikil á næsta unglingalandsmóti sem haldið verður á Höfn í Hornafirði að ári en það er einmitt 100 ára afmælisár UMFÍ.
Þorvaldur Hermannsson
Framkvæmdastjóri HSS.