22/12/2024

Umferðaróhapp á Stikuhálsi

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni vikuna 27. október til 2. nóvember 2008 kemur fram að í vikunni var tilkynnt um fjögur umferðaróhöpp. Á föstudaginn varð óhapp á Stikuhálsi í Strandasýslu er bifreið var ekið utan í vélskóflu. Á mánudag var bifreið ekið á grjót sem var á veginum í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Skemmdir voru minniháttar. Þá valt bifreið á Klettshálsi á þriðjudeginum.  Tveir voru í bifreiðinni og sluppu þeir með minniháttar meiðsl. Bifreiðin endaði nokkuð frá veginum. Þá varð minniháttar umferðaróhapp innanbæjar á Patreksfirði á fimmtudaginn.  

Í  síðustu viku var tilkynnt um tvö vinnuslys og eitt slys í heimahúsi í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Á mánudaginn datt maður ofan af gámi á vinnusvæði á Ísafirði og var hann fluttur á sjúkrahús með áverka á fæti. Á þriðjudag féll kona á heimili sínu á Hólmavík og var talið að hún væri beinbrotin. Hún var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík. Þá slasaðist maður um borð í báti þar sem hann var að veiðum fyrir utan Vestfirði. Bátnum var siglt til hafnar á  Þingeyri og var manninum komið þaðan á sjúkrahús með áverka á fæti.

Á laugardaginn kom upp eldur í bátnum Vestra BA sem lá í höfninni á Patreksfirði.  Slökkvilið réð niðurlögum eldsins en rannsókn á eldsupptökum stendur yfir.

Í lok vikunnar var talsvert um ölvun og áflog og tengdist það oftast skemmtistöðum á Ísafirði.  Tilkynnt var um fjórar líkamsárásir á Ísafirði um helgina og nokkuð var um útköll vegna ölvunar í heimahúsum. 

Einn ökumaður var handtekinn og kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á Patrekfirði um helgina.