04/10/2024

Hlaðborð og skemmtun í Hótel Glym til styrktar Guðmundi

Ljósm. Jón G.G. Kaffihlaðborð, skemmtidagskrá og listaverkauppboð verða í Hótel Glym í Hvalfirði á sunnudaginn, 6. júlí milli 14:00-18:00, og rennur öll innkoma dagsins óskipt á styrktarreikning Guðmundar á Finnbogastöðum. Mundi ætlar að sjálfsögðu að mæta sjálfur á staðinn og fleiri koma úr Árneshreppi. Staðarhaldarar á Hótel Glym eru Jón Rafn Högnason og Hansína B. Einarsdóttir, sem bæði eru ættuð úr Árneshreppi. Þau hafa rekið Hótel Glym með miklum myndarbrag frá árinu 2001.


Kaffihlaðborðið á sunnudag verður milli 14 og 18 og er þetta frábært tækifæri til að gera allt í senn: Hitta Strandamenn úr öllum áttum, njóta ljúffengra veitinga og skemmtilegrar dagskrár og leggja góðu máli lið.
Hótel Glymur stendur á frábærum útsýnisstað í kjarri vaxinni hlíðinni ofan við Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd, rétt vestan við Ferstiklu. Það tekur um 40 mínútur að keyra frá Reykjavík að Hótel Glym með því að fara Hvalfjarðargöngin en um það bil 1 klukkustund og 10 mínútur að keyra Hvalfjörðinn.
Látið endilega berast meðal Strandamanna og annarra vina Árneshrepps að leiðin liggi í Hvalfjörð á sunnudaginn.

Um leið er minnt á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum, reikningsnúmer er 1161-26-001050 og kennitala 451089-2509. Vefsíðan um uppbyggingu á Finnbogastöðum er www.trekyllisvik.blog.is.