22/11/2024

Um þjóðlendumál og eignarrétt á landi

Aðsendar greinar: Herdís Á. Sæmundardóttir
Þjóðlendumál og eignarréttur á landi hafa mikið verið til umræðu síðustu árin, enda um stórt og mikið hagsmunamál fyrir bændur og jarðeigendur í landinu að ræða. Í aðdraganda málsins á 9. áratugnum var rætt um að eðlilegt væri að skýra mörk svo kallaðs einskismannslands á hálendinu sem og í einhverjum tilvikum einnig eignarmörk afrétta. Kröfugerð fjármálaráðuneytisins í þinglýstar eignir virðist því í algjörri andstöðu við upphaflegan tilgang þessarar vegferðar og málsmeðferð sú sem viðhöfð er með öllu óásættanleg. Úr hófi keyrir kröfugerð ríkisvaldsins á Norðausturlandi, en þar er sums staðar gerð krafa um að land sé skilgreint sem þjóðlenda allt niður í sjó.

Á opnum fundi um þjóðlendumál og eignarrétt á landi, sem Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda hélt á Blönduósi fyrir nokkru, kom fram að gerð er krafa um að 75% af landi Grýtubakkahrepps verði skilgreind sem þjóðlenda í eigu ríkisins og dæmi eru um samskonar kröfur í allt að 90% jarða. Framganga ráðuneytisins er þannig hvorki í anda þess samstarfs sem bændur og ríkisvaldið áttu í aðdraganda málsins, né í samræmi við tilgang laganna sjálfra, sem er fyrst og fremst að tryggja eignamörk bújarða, þannig að hvergi leiki vafi á um eignarrétt jarðeigenda. Það er einnig með ólíkindum að sönnunarbyrðin skuli í sumum tilvikum vera lögð á landeigendur, slík málsmeðferð er í fullu ósamræmi við almennan refsirétt, en þar er sönnunarbyrði sektar á höndum ákæruvaldsins en ekki öfugt.

Þetta er eitt af þeim málum sem klýfur þjóðina í tvennt og innan stjórnmálaflokkanna – bæði ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem skipa stjórnarandstöðu – ríkir ekki eining um hvernig mál þessi skuli til lykta leidd. Annars vegar er um að ræða landeigendur, eignir þeirra og réttindi og hins vegar er hópur fólks sem telur það til mikilla hagsbóta fyrir þá sem ekkert land eiga að ríkið slái eign sinni á sem mest land sem sé þá nokkurs konar þjóðareign. Ég held að allir hafi skilning á því að mikilvægt sé að skilgreina hálendi landsins – hið svo kallaða einskinsmannslands sem eign allra landsmanna, en sú framganga fjármálaráðuneytisins að virða ekki eignarhald á þinglýstum eignum er alvarleg og óásættanleg.

Það er afar mikilvægt að skapa sátt um þjóðlendumál til framtíðar og þess vegna brýnt að ráðast í endurskoðun á þeim lögum sem gilda um þjóðlendur í því augnamiði að skýra betur forsendur, málsmeðferð og aðferðafræði. Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldinn var fyrir skömmu var samþykkt ályktun um að fresta frekari framgangi þjóðlendumála og taka lögin til endurskoðunar, ásamt því að fjármálaráðuneyti endurskoði kröfugerð sína þar sem mál standa yfir og leyti sem fyrst sátta við landeigendur. Þetta er í raun lágmarkskrafa og hlýtur að teljast eðlileg í ljósi þess að hér er um stórt og afar viðkvæmt mál að ræða.

Herdís Á. Sæmundardóttir.
Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.