30/10/2024

Um íbúaþróun og skólamál

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur gert dálitla úttekt á íbúafjölda á Ströndum og skoðað þróun í sveitarfélögum á svæðinu síðustu árin, í tilefni af fyrirhuguðum kosningum um sameiningu sveitarfélaga. Þar kemur meðal annars fram að um síðustu áramót voru Strandamenn á aldrinum 0-16 ára 203 talsins og hafði þá fækkað úr 234 frá árinu 1997. Jafnframt hefur ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is velt dálítið fyrir sér hver verði þróun mála næstu árin í skólamálum og miðar þá tilgátur sínar við árslok 2010. Þar er byggt á íbúaþróun síðustu ára og fjölda íbúa í sýslunni sem fædd eru á árunum 2000-2004. Þessir útreikningar sýna glöggt að sveitarfélögin á Ströndum eiga mjög í vök að verjast, hvað sem þenslu og góðæri í öðrum landshlutum líður.

Íbúaþróun á Ströndum síðustu árin:

Íbúum á Ströndum hefur fækkað töluvert á síðustu árum. Á tímabilinu 1999-2004 hefur þeim fækkað úr 879 í 795. Ef sama þróun heldur áfram fram til ársins 2010 ættu Strandamenn að verða orðnir 719 þá.

Íbúafjöldi alls

1999

2004

Broddaneshreppur

84

53

Árneshreppur

67

57

Kaldrananeshreppur

144

117

Hólmavíkurhreppur

493

465

Bæjarhreppur

91

103

 

 

 

Samtals:

879

795

Þróunin í Bæjarhreppi síðustu árin er alveg sér á parti hér á Ströndum. Þar hefur íbúum fjölgað sé litið til þessa árabils og að sama skapi er staðan hlutfallslega verri í hinum hreppunum. Þessi þróun í Bæjarhreppi gefur öðrum svæðum sýslunnar þó von um að hægt sé að snúa neikvæðri byggðaþróun á Ströndum öllum til betri vegar, sé unnið markvisst og skipulega að því. Árangur sem sveitarfélög annars staðar á landinu, eins og t.d. Súðavíkurhreppur, hafa náð í varnarbaráttunni á síðustu árum eflir sömu trú.

Fjöldi íbúa 16 ára og yngri

Ef fjöldi íbúa á Ströndum 16 ára og yngri er skoðaður sérstaklega kemur í ljós að á svæðinu voru íbúar á þeim aldri 203 í lok síðasta árs, hafði þá fækkað úr 234 í árslok 1997.

Fjöldi íbúa 16 ára og yngri

1997

2004

Broddaneshreppur

17

6

Árneshreppur

13

8

Kaldrananeshreppur

36

26

Hólmavíkurhreppur

154

133

Bæjarhreppur

14

30

 

 

 

Samtals:

234

203

Þróunin hefur eðlilega líka verið neikvæð í þessum aldurshópi síðustu árin, rétt eins og íbúaþróunin, að Bæjarhreppi undanskildum þar sem hún er miklu jákvæðari en annars staðar á Ströndum. Þar hafa orðið kynslóðaskipti í landbúnaðinum og íbúum á þessum aldri fjölgað úr 14 í 30 á sama tímabili, sem enn vekur vonir. Ef sveitarfélögin norðan Bæjarhrepps eru hins vegar skoðuð sérstaklega hefur íbúum 16 ára og yngri fækkað úr 220 í 173 á þessu tímabili.

Fjöldi barna á grunnskólaaldri næstu árin

Á vef Hagstofunnar – www.hagstofa.is – er hægt að nálgast upplýsingar um íbúafjölda í öllum sveitarfélögum eftir aldri. Þetta gerir okkur kleift að skoða hver þróunin verður í skólamálum í héraðinu næstu árin, þegar árgangarnir frá 2000-2004 bætast í grunnskólana. Í töflunni hér á eftir er gert ráð fyrir að engar breytingar verði á íbúafjölda á Ströndum næstu árin, eingöngu er reiknað út frá stöðu mála og fjölda barna í héraðinu í lok ársins 2004 og miðað við að þau skili sér öll í skólann á tilskyldum tíma. Niðurstaðan úr þessari töflu er að börn á grunnskólaaldri eru nú 126, en miðað við óbreytt ástand hefur þeim fækkað í 113 þegar skóli hefst haustið 2010.

Fjöldi á grunnskólaaldri

haust 05

haust 06

haust 07

haust 08

haust 09

haust 10

Hólmavíkurhreppur

83

80

76

74

78

72

Kaldrananeshreppur

16

16

17

18

15

14

Árneshreppur

5

5

3

2

2

3

Broddaneshreppur

3

3

3

3

4

4

Bæjarhreppur

19

20

18

18

19

20

Ef einnig er reiknað með samsvarandi hlutfallslegri fækkun í þessum aldurshópi á svæðinu fram til 2010 og verið hefur undanfarin ár vegna búsetuflutninga þá verða börn á grunnskólaaldri sem hefja nám haustið 2010 enn færri eða um 102. Vert er að benda á að of mikil fækkun á börnum í grunnskólum getur leitt af sér keðjuverkandi neikvæð áhrif á búsetu. Væntanlega yrði þá meiri samkennsla í stærstu skólunum og jafnframt fækkar stöðum og atvinnutækifærum fyrir kennara sem hugsanlega taka sig þá upp með fjölskyldur sínar og elta vinnuna sína annað.

Að lokum þetta …

Þessar tölur og töflur eru unnar upp úr vef Hagstofu Íslands, sem er öllum opinn og aðgengilegur. Þær eru alls ekki hugsaðar til að draga kjark úr mönnum, miklu frekar vonumst við til að þær efli með þeim baráttuhug. Þær sýna vissulega svo ekki verður um villst að vandi steðjar að byggðinni. Honum má hins vegar ekki taka sem óbreytanlegri staðreynd og leggja árar í bát.

Hvernig sem kosningar um sameiningu sveitarfélaga fara hljóta allir Strandamenn að gera kröfu til sinna sveitarstjórnarmanna um þeir horfist fast í augu við þennan vonda vanda og taki á honum með öllum tiltækum ráðum. Í þeirri glímu duga engin vettlingatök. Áfram Strandir.