22/12/2024

Um ferðaþjónustu, atvinnumál og fjármál Strandabyggðar

Aðsend grein: Elín Gróa Karlsdóttir
Fyrir tveimur árum fór ég ásamt fjölskyldunni á ónefndan stað á Austfjörðum og sú heimsókn er mér minnistæð að mörgu leyti. Við gistum eina nótt í íbúð sem hótelið á staðnum hafði til útleigu í niðurníddu litlu fjölbýlishúsi sem greinilega var byggt í bjartsýniskasti sveitarfélagins á meðan allt stóð í blóma á þessum stað. Gistingin var fín en þegar við fórum úr bænum klukkan eitt daginn eftir og ætluðum að kaupa gos og kex til að hafa með sem nesti var hvergi hægt að versla því bæði búðin og sjoppan á staðnum voru ekki opin á þessum tíma í miðri viku á háanna ferðamannatíma! Ég fékk það á tilfinninguna að það ríkti þarna mikið vonleysi og gat ekki séð að neitt væri verið að gera til að rífa upp ástandið í bænum.

Hér hefur mikið verið gert á undanförnum árum til að rífa upp ferðaþjónustuna og eiga aðstandendur Strandagaldurs stóran hlut í því og eiga svo sannarlega skilið þá viðurkenningu sem þeir hlutu nú fyrir skömmu. Það er greinilega mikill hugur í fólki hér og margar góðar hugmyndir sem hafa verið settar fram hér á strandir.saudfjarsetur.is um eflingu ferðaþjónustu og atvinnumál.

Það er eitt sem mér finnst hafa gleymst svolítið í umræðunni en það er stuðningur við þau fyrirtæki sem eru hér starfandi nú þegar. Þá á ég bæði við hvað sveitarfélagið er að gera til að styðja rekstur þeirra fyrirtækja sem eru starfandi og eins hvað við íbúar sveitarfélagsins erum að gera til að halda þessum fyrirtækjum gangandi. Ég er ekki á þeirri skoðun að sveitarfélög eigi að styrkja fyrirtæki með beinum fjárframlögum eða vera sjálft í atvinnurekstri en það er ýmislegt sem sveitarfélagið getur gert til að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja. 

Nú eru til sölu þrjú fyrirtæki sem þjóna ferðafólki sem heimsækir Strandir, Gistiheimilið á Borgabraut, veitingastaðurinn Café Riis og Vélsmiðjan Vík. Ástæða sölu þessara fyrirtækja er eflaust misjafn en í einhverjum tilvikum er það vegna þess að verkefnin hafa ekki verið næg á undanförnum árum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að ferðaþjónusta verður ekki efld nema hér sé þjónusta við ferðamenn.

Hér var til umræðu ráðning ferðamálafulltrúa. Ég er sammála Jóni Jónssyni að ekki sé nauðsynlegt að ráða sérstakan ferðamálafulltrúa því það kosti töluvert og að mínum dómi er það of stór biti fyrir sveitarfélag sem er ekki stærra en Strandabyggð er nú og mörg önnur brýnni verkefni í forgangi.

Ég sótti íbúafund í sveitarfélaginu nú fyrr í vetur og síðan þá hefur setið í mér að sveitarstjóri upplýsti á fundinum að sveitarfélagið sé fjármagnað með lántökum uppá 40 – 50 milljónir á ári hverju til að reksturinn nái saman. Einn íbúinn stóð upp og spurði hvenær við færum á hausinn! Er það nema von að íbúar spyrji sig að því? Oddviti meirihlutans svaraði því til að sveitarfélagið væri ekki enn komið á svartan lista hjá Sambandi sveitarfélaga. Er það takmarkið áður en eitthvað verður gert til að snúa þessari þróun við? Ég fékk það sterklega á tilfinninguna þarna á fundinum að mikil þörf væri á að taka upp ábyrgari fjármálastjórnun hjá sveitarfélaginu. Eftir því sem mér skildist á svörum sveitarstjóra tíðkast mjög svo gamaldags vinnubrögð við fjárhagsáætlanagerð. Þau vinnubrögð sem hafa verið tekin upp hjá ríkinu og mörgum sveitarfélögum við fjármálastjórnun og hafa reynst mjög vel hafa ekki verið innleidd hér.

Ásamt því að taka upp ábyrgari fjármálastjórnun er að mínum dómi full þörf á því að skoða alla möguleika sveitarfélagsins til hagræðingar og að sveitarstjórn setji fram stefnumótun til næstu ára um hvernig hún ætlar að snúa við rekstri sveitarfélagsins. Mér finnst það segja sig sjálft að það er óhjákvæmilegt að eitthvað þarf að gera og þær aðgerðir gætu komið við íbúa sveitarfélagsins um tíma á meðan náð er tökum á rekstrinum. Ég hvet sveitarstjórn Strandabyggðar til að taka upp ábyrgari fjármálastjórnun og setja fram skýra framtíðarsýn um hvernig rekstri sveitarfélagsins verður hagað í framtíðinni.

Elín Gróa Karlsdóttir, viðskiptafræðingur á Hólmavík