28/04/2024

Um byggða- og atvinnumál á nýafstöðnum Landsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Byggðin og búsetan út til stranda og inn til dala er ein af hinum dýru auðlindum þessa lands. Hún er ein af mikilvægum forsendum fyrir fjölbreyttu mannlífs og tryggir verndun og sjálfbæra nýtingu auðlinda landsins á þjóðhagslega hagkvæmast hátt. Þarna gegnir sjávarútvegurinn, fiskvinnslan og fjölþættur landbúnaður lykilhlutverki. Vöxtur og þróun sjálfbærrar náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu byggir á blómlegu atvinnulífi og byggð um allt land. Nú þarf að breyta var yfirskrift Landsfundar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um síðustu helgi, en þar var ályktað kröftugt um breytta stefnu í byggða- og atvinnumálum.

"Efla ber íslenskan landbúnað og treysta byggð í sveitum landsins"
Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á fjölskyldubúið sem grunneinigu í landbúnaði.
Fréttir af stórfelldum raðuppkaupum stóreignamanna og fjármálafyrirtækja á jörðum í búskap og söfnun framleiðsluréttar í landbúnaði á fárra hendur er ógn við byggðina til sveita. Slík samþjöppun er andstæð hugmyndum um sjálfbæra þróun og getur stefnt búsetu og  öryggi landbúnaðarframleiðslunnar í hættu með ófyrirsjáanlegum afleiðingu fyrir neytendur. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi tillögur sem miða að því að takmarka magntengdan framleiðslu stuðning ríkisins við landbúnað að ákveðnu hámarki í  bússtærð. Stuðningurinn fari lækkandi á framleidda einingu eftir að ákveðinni bústærð er náð uns hann fellur alveg niður. Þess í stað verði tekinn upp búsetutengdur grunnstuðningur þar sem almannahagsmunir eins og  landvarsla, verndun og endurheimt landgæða og framleiðsla landbúnaðarvara á sjálfbæran og lífrænan hátt fær aukið vægi. Gleðileg frétt var í vikunni að Kjötvinnsla Kaupfélagsins á Hvammstanga hóf vinnslu á kjöti sem framleitt er á lífrænan hátt og er sérstök ástæða tila að hvetja neytendur til að styðja það lofsverða framtak.
 
"Byggðatenging fiskveiðiheimilda og vistvænar veiðar"
Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan er enn sem fyrr einn af höfuðatvinnuvegum okkar og byggðin og búsetan meðfram ströndum landsins hefur byggst á nálægðinni við fiskimiðin.  Sjálfbærar veiðar og vinnsla byggja einmitt á því að þannig sé staðið málum. Baráttumál Vinstri – grænna  er að hluti fiskveiðiheimilda sé bundinn sjávarbyggðunum og megi hvorki selja eða leigja burt.

Stöðugt stærri hluti aflans fer óunninn í gámum úr landi. Á síðasta ári nam sá útflutningur nærri 50 þús. tonnum.

Þingmenn Vinstri – grænna  hafa lagt fram á þingi tillögur um aðgerðir sem hvetja til þess að allur fiskur sem ekki fer í eigin vinnslu í heimahöfn fari á markað hér á landi þannig að íslenskar fiskvinnslur geti boðið í hann til vinnslu.  En  fari fiskurinn í gámum  beint á markaði erlendis eiga innlendar fiskvinnslur enga aðkomu að því að bjóða í þann fisk..
 
"Heildstæðar rannsóknir á lífríkinu verði forsenda veiðiráðgjafar"
Loðnuveiðar hófust að marki upp úr 1970 og hafa veiðarnar sum árin numið um og yfir 1 milljón tonna. Áratugum saman fyrr á síðustu öld voru einnig veidd um 500 þús tonn af þorski á Íslandsmiðum, sem þá voru ekki aðeins opin íslenskum bátum heldur einnig fjölda stórvirkra erlendra fiskiskipa. Nú er þorskkvótinn einungis um 200þús tonn og sumum þykir það ofrausn.

Hver lífvera er háð annarri og það að vaða skyndilega inn í lífmassann meðfram ströndum landsins og taka þaðan allt upp í milljón tonn af loðnu hlýtur að hafa áhrif.

Loðna og síli ýmiskonar eru einmitt aðalfæða þorsksins. Ef loðnan er ofveidd hvað verður þá um fæðu fyrir þorskinn?  Sumir telja að hann ráðist þá  á innfjarðarækjuna og þess vegna sé hún búin. Hver veit?
Gríðarlega stór loðnutroll eru dregin af aflmiklum loðnubátum fram og til baka um loðnumiðin. Það getur enginn fullyrt um hver áhrif þessi veiðaðferð hefur á lífríkið. Fiskveiðarnar verður að stunda á sjálfbærum grunni.

Veiðiráðgjöfin á að byggja á heildstæðum rannsóknum á lífríki hafsins og innra samspili lífveranna í hafinu og þá ekki síst áhrifum mismunandi veiðarfæra.

Það sjá allir áhrif jökulánna þar sem þær falla til sjávar, gríðarlegur framburður þeirra leirlitar sjóinn langt á haf út  og hefur gert um þúsundir ára. Geta menn vænst þess eða fullyrt að það hafi engin áhrif á lífríki sjávarins meðfram ströndinni að stífla jökulárnar og hefta framburð þeirra og flóð?.

"Ferðaþjónustan er vaxtargrein sem verður að fá aukið svigrúm"
Ferðaþjónustan er sá atvinnuvegur landsmanna sem vex hvað hraðast og skilar mestri aukningu gjaldeyristekna til þjóðarbúsins ár hvert, 35 milljörðum í nettó á sl. ári. Þar eigum við mikla möguleika.

Í ár er talið um 370 þús ferðamenn komi til landsins og  búist er við að fjöldi erlendra ferðamanna geti þrefaldast á næstu 10 árum. Nú eru blikur á lofti, fjölgun ferðamanna var 10 % í fyrra en um 1 % í ár. Tekjur af ferðamönnum minnka aðeins á milli ára. Ríkisstjórnin hefur skorið niður framlög til markaðsmála. Hömlulaus stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar með háu gengi krónunnar mun að óbreyttu kyrkja vaxtarbrodda ferðaþjónustunnar.
 
Ferðaþjónustan, mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs undanfana áratugi verðskuldar að njóta stuðnings og viðurkenningar í hlutfalli við mikilvægi sitt í þjóðarbúskapnum" segir í stjórnmálaályktun Landsfundar Vinstri – grænna.
 
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs