22/11/2024

Tvö útköll hjá Björgunarsveitinni Dagrenningu

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík fór í tvö útköll í leiðindaveðri og ófærð í gær, þann 10. janúar. Annars vegar var um að ræða vegfarendur sem höfðu fest jeppling í snjó á veginum um Arnkötludal. Hjálparbeiðnin kom laust eftir miðnætti og einum og hálfum tíma síðar var komið til Hólmavíkur með ferðalangana. Þess má geta að lélegt símasamband var á þeim stað þar sem bíllinn sat fastur, en ferðalöngum tókst að senda hjálparbeiðni með SMS skilaboðum.

Hitt útkallið var vegna jeppa sem var fastur í Norðdal, þar sem leiðin liggur niður í Staðardal af Steingrímsfjarðarheiði. Bíllinn var að koma að vestan, en Steingrímsfjarðarheiðin var skráð ófær. Nokkuð tók á að komast upp Norðdal að bílnum og varð að hleypa úr dekkjunum á Patrol björgunarsveitarinnar niður í 4 pund. Hjálparbeiðnin barst kl. 20:45 og var komið í hús aftur kl. 23:00.

Frá þessu er greint á vefsíðu Dagrenningar – www.123.is/dagrenning.