Tvær sýningar verður verða opnaðar á Laugarhóli í Bjarnarfirði á laugardaginn kemur kl. 15:00. Annars vegar er þar um að ræða sögusýningu undir yfirskriftinni ALLIR EITT í sundskýlinu við Gvendarlaug hins góða en sú sýning fjallar um sögu sundlaugarinnar og sundiðkun í Bjarnarfirði. Hins vegar er samsýning myndlistarmannanna Kristjáns Guðmundssonar og Árna Páls Jóhannssonar í GALLERÍ KLÚKU á Hótel Laugarhóli.
Á sýningunni ALLIR EITT gefur t.d. að líta ljósmyndir úr fórum Þórdísar Loftsdóttur húsfreyju í Odda frá byggingu og vígslu laugarinnar, auk fróðleiks úr gömlum fundargerðabókum Sundfélagsins Grettis og fleira, en félagið stóð fyrir byggingu sundlaugamannvirkjanna á Klúku undir kjörorðinu ALLIR EITT.
Það er Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða sem á veg og vanda að sýningunni og naut til verksins styrkja frá Menningarráði Vestfjarða. Af þessu tilefni hafa sundskýli laugarinnar verið betrumbætt og er öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn færðar bestu þakkir. Sýningin ALLIR EITT er komin til að vera og veita gestum Gvendarlaugar tilfinningu fyrir þeim einhug og framsýni sem ríkti við gerð þessa merka mannvirkis auk fróðleiks um byggingasögu hennar.
Sýningunni er einnig ætlað að vera hvatning til vina og velunnara laugarinnar til að ganga til liðs við Hollvinafélagið og taka höndum saman um að klára það einstaka verk sem bygging Gvendalaugar var. Til að gerast meðlimur í félaginu er áhugasömum bent á að hafa samband við formann félagsins Arnlíni Óladóttur eða skrá sig á fésbókarsíðuna: Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða.
Að lokinni opnun á sýningunni ALLIR EITT verður opnuð samsýning listamannanna Kristjáns Guðmundssonar og Árna Páls Jóhannssonar í GALLERÍ KLÚKU. Kristján Guðmundsson hefur unnið að list sinni undanfarna áratugi og sýnt víða hér heima og erlendis. Þetta er fyrsta sýning Kristjáns í Gallerí Klúku. Árni Páll Jóhannsson á að baki áratuga langan feril sem myndlistarmaður, en þetta er þriðja sýning hans í Gallerí Klúku.