30/10/2024

Tröllatunguheiði opnuð umferð

Í hádeginu fór Kristján Guðmundsson ýtustjóri með jarðýtu upp á Tröllatunguheiði að ósk Vegagerðarinnar til að opna veginn yfir heiðina. Að sögn Kristjáns er lítill snjór á heiðinni og hann gerir ráð fyrir að vera snöggur að keyra sig í gegn og að heiðin verði því opin umferð eftir fáeinar klukkustundir. Einhver bleyta segir Kristján að verði sjálfsagt hér og þar og fyrst um sinn er vegurinn talinn jeppafær. Hann mun þó þorna fljótlega ef veðurblíðan helst sem horfir. Kristján fer svo áfram vestur Reykhólasveit og ræðst til uppgöngu á Þorskafjarðarheiðina sem ætti samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar að opnast fyrir umferð á föstudag, en þar þarf að fara í viðgerðir í framhaldi af opnuninni.