22/12/2024

Tónlistardagskrá til heiðurs Stefáni frá Hvítadal

pbase.com/bolli - ljósm. Bolli ValgarðssonLaugardaginn 22. september kl. 17:00 verður boðið upp á tónlistardagskrá í Staðarhólskirkju í Saurbæ, þar sem flutt verða sönglög við ljóðatexta Stefáns skálds frá Hvítadal. Bærinn sem Stefán kenndi sig við er í Saurbæ í Dalasýslu. Á þessu ári eru 120 ár liðin frá fæðingu Stefáns og er dagskráin unnin í samvinnu við Grunnskólann í Tjarnarlundi í Saurbæ, áhugafólk um skáldverk Stefáns frá Hvítadal og Pennu sf.  Nemendur Grunnskólans munu flytja ljóð Stefáns og leika undir, en sönghópur undir stjórn Sigrúnar Steingrímsdóttur kórstjóra mun flytja ástsæl sönglög við texta Stefáns. 

Meðal verka er frumflutningur á nýrri útsetningu Atla Heimis Sveinssonar á lagi sem hann samdi ungur við ljóð Stefáns, Drottningin í Sólheimum. Tónskáldið vann nýja útsetningu við ljóðið sérstaklega af þessu tilefni til að heiðra 120 ára minningu skáldsins.

Að dagskrá lokinni býður Grunnskólinn í Tjarnarlundi upp á kaffiveitingar sem nemendur hafa tekið þátt í að undirbúa og í skólahúsnæðinu verður sýning á verkefnum nemenda grunnskólans sem unnin voru út frá skáldverki Stefáns frá Hvítadal. Verkefnið er stutt af Menningarsjóði Vesturlands og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

Strandamenn eru hvattir til að vinda sér vestur yfir heiðar og mæta á skemmtunina, en eins og kunnugt er fæddist Stefán á Hólmavík og ólst upp í Kollafirði á Ströndum. Staðarhólskirkja og félagsheimilið Tjarnarlundur standa á sama hólnum og aðeins fáeinir metrar á milli, til nánari glöggvunar fyrir þá sem þekkja ekki vel til kirkna í Saurbænum en hafa kannski farið þangað á ball.