13/11/2024

Tískusýning á Bryggjuhátíð

Anna Gunnarsdóttir textílhönnuður og listakona verður með lifandi tískusýningu á Bryggjuhátíðinni á Drangsnesi þann 16. júlí n.k. Anna vinnur aðallega með silki og ull, en notar einnig ýmis önnur náttúruefni eins og skinn og roð. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum listasýningum bæði hér heima og erlendis og hlotið viðurkenningar fyrir sín verk. Að sögn Önnu vill hún að tískusýningin á Bryggjuhátíðinni verði lifandi og öðruvísi.  Fötin segir hún hönnuð fyrir allar konur og ekki bara tágrannar tískusýningarstúlkur.

Af því að Strandamenn vilja gjarnan fá að vita hverra manna fólk er, þá skal þess getið hér að Anna er ættuð frá Broddadalsá. Dóttir Gunnars Hjartarsonar Jónssonar.