22/11/2024

Tilnefndu Strandamann ársins 2008!

ddRétt er að minna á að enn er hægt að senda inn tilnefningar á Strandamanni ársins 2008, en frestur til að skila inn tilnefningu rennur út kl. 12:00 á hádegi sunnudaginn 8. febrúar (á morgun). Allmargir hafa verið tilnefndir og nokkrir aðilar hafa fengið margar tilnefningar vegna ýmissa afreka, eljusemi, þrautseigju og margskonar fjölbreytilegs framlags til samfélagsins á Ströndum, svo fátt eitt sé nefnt. Staðan er býsna jöfn og því ríður á að sem flestir sendi inn tilnefningar áður en fresturinn rennur út á morgun. Allir lesendur strandir.saudfjarsetur.is eru hvattir til að taka þátt, en í síðari umferð verður valið á milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fá.

Strandamaður ársins hefur verið valinn fjórum sinnum á vefnum strandir.saudfjarsetur.is, en fyrsta árið var valið unnið í samvinnu við blaðið Fréttirnar til fólksins og árið 2008 í samvinnu við Gagnveg. Þeir sem hafa verið valdir eru Sverrir Guðbrandsson eldri á Hólmavík árið 2004, Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi var Strandamaður ársins 2005, Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi var kjörin árið 2006 og hjónin Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi unnu árið 2007.