22/12/2024

Tillögu um stuðning við námsfólk hafnað

Tillögu H-lista sem er í minnihluta í hreppsnefnd Bæjarhrepps um að sveitarfélagið styðji við námsfólk á framhaldsskólastigi sem er með lögheimili í sveitarfélaginu var vísað frá með 3 atkvæðum gegn 2 á fundi hreppsnefndar Bæjarhrepps þann 10. janúar. Hún hafði áður verið tekin fyrir á fundi hreppsnefndar 6. desember, en þá var afgreiðslunni frestað. Fundargerðirnar eru birtar á heimasvæði Bæjarhrepps á strandir.saudfjarsetur.is.


Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun vegna þessarar afgreiðslu:

”Fulltrúum H-lista í hreppsnefnd Bæjarhrepps þykir mjög miður að L-listi hreppsnefndar Bæjarhrepps hafi ekki séð sér hag í því að styðja við námsfólk með lögheimili í sveitarfélaginu með þeim hætti er tillaga H-lista frá fundi dags. 6. desember síðastliðinn fól í sér.”

Tillagan sjálf sem lögð var fram 6. desember var svohljóðandi:

"Að greiddir verði námsstyrkir til framhaldsskólanema með lögheimili í sveitarfélaginu. Lagt er til að eftirfarandi reglur gildi.

   1. Greiddur er námsstyrkur til þeirra er stunda nám í framhaldsskóla og eru á aldrinum 16 til 25 ára.
   2. Greiddar eru kr. 30.000,- á önn.
   3. Miðað skal við 8 annir eftir grunnskóla.
   4. Greiðslur fari fram í janúar eftir haustönn og júní vegna vorannar.
   5. Nemendur þurfa að senda staðfestingu um að þeir stundi fullt nám í viðkomandi skóla, til skrifstofu Bæjarhrepps áður en greiðsla fer fram."

  

Víkurnar – ljósm. Jón Jónsson