Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur auglýst tillögu að nýju deiliskipulagi íþrótta- og þjónustusvæðis við Jakobínutún á Hólmavík, í kringum félagsheimili, íþróttamiðstöð, tjaldsvæðið og fyrirhugaðan íþróttavöll þar ofan við. Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022 og er gert ráð fyrir hringtorgi þar sem Hafnarbraut og Höfðatún mætast og nýrri lóð fyrir ferðaþjónustu við félagsheimilið, nær Hafnarbrautinni. Þar er fyrirhugað að reisa gistihús eða hótel. Mörk deiliskipulagsins eru Hafnarbraut í suðri, ásinn í vestri, efri mörk íþróttasvæðis og væntanlegt íbúðasvæði í Brandskjólum í norðri og íbúðabyggð við Skólabraut og Vitabraut í austri.
Deiliskipulagstillagan verður til sýnis á skrifstofu Strandabyggðar að Höfðagötu 3 á Hólmavík og á heimasíðu Strandabyggðar, www.strandabyggd.is frá og með 23. september 2014 til og með 4. nóvember 2014. Hér má einnig sjá skipulagstillögu og skýringarmynd. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út 4. nóvember 2014. Skila skal inn skriflegum athugasemdum á skrifstofu Strandabyggðar, Höfðagötu 3, 510 Hólmavík eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is.