Tilboð í viðamiklar umbætur og framkvæmdir við Gjögurflugvöll þar sem meðal annars á að leggja bundið slitlag á flugbrautina voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Á opnunarfundinum voru lesin upp nöfn bjóðenda og heildartilboðsfjárhæð, en þrjú tilboð bárust í verkið. Það var fyrirtækið Jarðlist ehf sem átti lægsta boð, tæpar 77,8 milljónir. Aðrir sem buðu í verkefnið voru Borgarverk ehf sem bauð rúmar 95,8 milljónir og Vörubifreiðarstjórafélagið Mjölnir sem bauð rúmar 103 milljónir. Kostnaðaráætlun var upp á rúmar 123 milljónir.