22/12/2024

Þróun heimahaganna: Hugmyndir og sjónarmið

svæðisskipulagsverkefni, tjarnarlundur, fundur

Svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar sem vinnur nú að gerð svæðisskipulags fyrir þessi þrjú sveitarfélög hefur boðað til fundar í Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi þriðjudaginn 6. september kl. 17.30-21:30. Áhugasamir eru velkomnir á fundinn, en annar slíkur var haldinn í Tjarnarlundi í lok apríl síðastliðnum. Þar var svæðisskipulagsverkefnið kynnt og fjörugar umræður sköpuðust um þróun vöru og þjónustu, nýtingu auðlinda, umgengni við náttúruna, uppbyggingu og mannvirkjagerð og samvinnu aðila. Á fundinum núna verður úrvinnsla gagna frá fyrri fundi kynnt og lögð fram frumdrög af lýsingu á mögulegum áherslum við að styrkja ímynd svæðisins og þróa meginatvinnugreinar. Fundarmenn ræða þessi drög og setja fram tillögur um ferðaleiðir og áfangastaði.

Þeir sem ætla að taka þátt þurfa að skrá sig hjá Matthildi Kr. Elmarsdóttur hjá Alta, matthildur@alta.is eða hringja á skrifstofu Alta í síma 582 5000, fyrir mánudaginn 5. september. Vegna veitinga á fundinum og skipulags hópavinnu er nauðsynlegt að skrá sig.

Meðfylgjandi mynd tók Jón Jónsson fyrir strandir.saudfjarsetur.is á fundinum í vor.