22/12/2024

Þrjú ný göngukort komin út

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa lokið útgáfu á vönduðum göngu- og
útivistarkortum um starfssvæði sitt, svo áhugafólk um útiveru getur glaðst þessa
dagana og farið að skoða vænlegar gönguleiðir fyrir næsta sumar á öllum
Vestfjarðakjálkanum. Á síðasta föstudag komu út þrjú síðustu kortin í seríunni
sem taka yfir Hornstrandir til Steingrímsfjarðar að austan og Arnarfjarðar að
vestan. Áður höfðu komið út fjögur kort með gönguleiðum á öðrum hlutum
Vestfjarðakjálkans ásamt Dalasýslu. Þetta er langviðamesta verkefni sem
Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa staðið fyrir og kostað um 12 milljónir króna.
Kortin sem munu fást á öllum helstu ferðamannastöðum á svæðinu eru m.a. komin í
sölu í verslun og netverslun Strandagaldurs. Hægt er að skoða kortin og kaupa
þau með því að smella hér.


Nýju göngukortin þrjú. Áður hafa komið út fjögur kort.