28/04/2024

Þriðji í þökulagningu

Gott fordæmiNú hefur fólk safnast tvisvar sinnum saman í Brandskjólunum á Hólmavík og lagt þökur á nýjan íþróttavöll í sjálfboðavinnu. Áfram verður haldið í kvöld og verður nú klárað að leggja á völlinn. Mæting er kl. 19:30 við Íþróttamiðstöðina og síðan marsera allir sem vettlingi geta valdið út á nýja völlinn og láta þar hendur standa fram úr ermum í vorblíðunni. Mikilvægt er að menn séu í góðum hlífðarfötum. Að sögn Einars Indriðasonar verkstjóra hjá Strandabyggð koma þökurnar vel undan vetri og ágætlega lítur út með vallagerðina, en stefnan er að leggja á völl sem er um það bil 35×60 metrar í þessum áfanga. Um 3/4 hlutum verksins er lokið.