22/11/2024

Þorrablótið á Borðeyri í máli og myndum

Þorrablótið á Borðeyri var haldið síðastliðið laugardagskvöld og var að venju hin besta skemmtun, þar sem Bæhreppingar, nágrannar þeirra, vinir og kunningjar áttu saman góða kvöldstund. Þar var þorramatnum frá Staðarskála gerð góð skil, undir stjórn Einars Georgs Einarssonar, sem var veislustjóri kvöldsins. Auk margra góðra sagna sem Einar flutti við stjórnina skipaði söngur, sem allir tóku meira og minna þátt í, þema kvöldsins.

Einar var svo með annál ársins og er sjálfsagt margur enn með krampa í maganum eftir gríðarlegan hlátur sem honum fylgdi. Einar Georg sem hefur mörg undanfarin ár flutt annálinn fór á kostum yfir því helsta sem gerðist í Bæjarhreppi síðastliðið ár. Má þar nefna, þá spennu og magapínu sem ákveðnir menn fengu þegar stofnbréf Sparisjóðsins tóku skyndilega að hækka í verði öllum að óvörum. Eins var réttarbyggingin á Hvalsá tekin fyrir en þar tóku mál óvænta stefnu.

Fjallað var um óvæntan húsflutning til Borðeyrar þar sem önnur hús á eyrinni sem skyndilega máttu mæla af munni fram mótmæltu kröftuglega, þrátt fyrir samstöðu hreppsnefndarinnar þar um. Minnst var á það hversu niðurdrepandi það var fyrir “konu” að vera hafnað þegar hún tók upp á því að bjóða öðrum en sínum ektamanni upp í dans á blótinu í fyrra.

Sagt var frá nýkomnu gemsasambandi í Skálholtsvík og þeim miklu breytingum sem það hafði á menn og samfélagið þar, svo eitthvað sé nefnt. Eins og þeir sem til þekkja þá er Einar frábær ræðumaður og eru menn bara hvattir til að mæta á blótið að ári í þeirri von að hann verði þar sem fyrr. Hörður G. Ólafsson sá um fjörið í dansinum sem stóð fram undir birtingu. Aðsóknin var í dræmra lagi, en ekki skiptir öllu máli þótt sé fámennt, þegar er góðmennt. 

Myndir má finna undir tenglinum http://sgverk.com/gallery/album29