22/12/2024

Þorgeir Pálsson býðst til að leiða lista Pírata í Norðvesturkjördæmi

300-thorgeir-palssonTilkynning frá Þorgeiri Pálssyni, Hólmavík 
Framboð á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2016. 

Ég er Vestfirðingur; fæddur á Hólmavík 10.04.1963 og er í sambúð með Hrafnhildi Skúladóttur (20.12.1974) frá Þingeyri. Móðurættin mín er frá Suðureyri í Tálknafirði, en föðurættin af Ströndum. Við Hrafnhildur eigum Heklu Karítas (26.03.2013). Hrafnhildur á svo Jóhönnu Rannveigu (17.05.2006) og ég á Stefán Þór (12.02.1993). Við búum á Hólmavík, nema sonur minn, sem býr í Garðabæ. Helstu áhugamál fyrir utan stjórnmál eru; tónlist; Blues, Rock, Jazz, gamlir bátar, íþróttir, útivist, matreiðsla, góðar bíómyndir og skáldskapur.

Það hefur lengi blundað í mér að blanda mér í landsmálapólitík með það í huga að vinna að úrbótum, umbótum, framförum og tala fyrir betra og skilvirkara samfélagi. Ég sé tækifæri í aðkomu Pírata að íslenskum stjórnmálum og ég skynja þar möguleika á að ná fram breytingum sem eru löngu tímabærar.

Ég hef unnið víða og þekki til margra starfsstétta. Ég hef unnið við umönnun aldraðra og geðfatlaðra, garðyrkju, verið á sjó, unnið í fiski, skipulagt ferðir viðskiptasendinefnda erlendis, starfað í tugum landa, unnið með fólki af ýmsu þjóðerni, rekið fyrirtæki, stundað kennslu á háskólastigi og kynnst atvinnulífinu frá ótal hliðum sem ráðgjafi sl. 20 ár. Nokkur af þeim fyrirtækjum sem ég hef unnið fyrir eru:  Marel, Íslandstofa, ICECON/Brim, CAPACENT og Atvinnuþóunarfélag Vestfjarða. Meðal viðskiptavina minna sem ráðgjafi má nefna: SAMSKIP, SAGA Film, Practical ehf., Íslenska Umboðssalan, Iceland Seafood international, EJS, Fornleifanefnd ríkisins, Lánasýsla ríkisins, Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga, Vísindagarðurinn ehf, Oddi hf, Félag Málmiðnaðarmanna á Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Vinnslustöðin Vestmannaeyjum, Hveragerðisbær, Hafnarfjarðarhöfn, MS (Mjólkursamsalan), Melrakkasetur Íslands (Súðavík), Sjóræningjahúsið (Patreksfirði), Málmey (Hafnarfirði), Ísfélag Vestmannaeyja (Þórshöfn), Thor Ice ehf (Reykjavík), Naust Marine (Hafnarfirði), Strandabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og margir fleiri.

Ég hef tekið erfiðar ákvarðanir, mætt mótbyr en líka upplifað framgang og sigra. Hvoru tveggja hefur reynst mér mikilvægt veganesti. Það sem einkennir mína reynslu er grasrótarvinna og samvinna fólks úr ólíkum áttum. Ég tel mig þekkja ágætlega hagsmuni og kjör þeirra sem lifa og starfa í Norðvesturkjördæmi hér á þessu Íslandi okkar.

Þessi bakgrunnur hefur gefið mér ágæta innsýn í hagsmuni og kjör þeirra sem lifa og starfa í Norðvesturkjördæmi.

Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.

Mínar áherslur eru helstar:

  • Ég styð frjálsar handfæraveiðar með vísindalega studdum takmörkunum, ég vil nýja stjórnarskrá, ég vil kjósa um aðild að Evrópusambandinu, ég styð mun meiri stuðning til handa fólki sem glímir við fjárhagsvanda sem rekja má til hrunsins, ég styð lýðræði og jafnrétti, ég er sammála þörfinni fyrir gagngera endurskoðun á menntakerfinu o.fl.
  • Ég vil að meiri virðing sé borin fyrir stöðu landsbyggðarinnar. Það má ekki kæfa sérstöðu einstaka landshluta í þeirri meðvirkni að allt þurfi að vera eins hjá öllum. Sumir landshlutar henta betur fyrir vissar atvinnugreinar, t.d. sjávarútveg og fiskeldi og sú staðreynd á að ráða við uppbyggingu stoðkerfis viðkomandi svæðis
  • Ég vil sjá kjördæmið allt komast á par við aðra landshluta hvað varðar fjarskipti, raforkumál og samgöngur. Landsbyggðin er háð því að fólk geti stundað sína vinnu, verið einyrkjar, rekið lítil fjölskyldufyrirtæki og haldið uppi atvinnu á litlum stöðum. Það er pólitísk ákvörðun að viðhalda landsbyggðinni. Afleiðingar kvótakerfisins, lánaskilmálar fjármálastofnanna, hár flutningskostnaður sem leiðir af sér hærra vöruverð o.fl., hafa rýrt eignir fjölda fólks. Fyrir það fólk er engin valkostur að flytja
  • Ég vil aðgerðir í málefnum ferðaþjónustunnar núna! Við erum á eftir hvað vaðar; samgöngur, dreifingu ferðamanna út á land, uppbyggingu ferðamannastaða úti á landi, fjarskipti, samskipti, öryggismál, eftirlit, skilvirkni í stjórnsýslu greinarinnar o.s.frv. Stærsta tækifæri íslenskra ferðaþjónustu er landsbyggðin og það tækifæri er illa nýtt í dag!
  • Meðferð kynferðisbrotamála í réttarkerfinu er til skammar. Mýmörg dæmi sanna það. Því þarf að breyta innan réttarkerfisins. Ég vil að þolendur kynferðisafbrotamanna njóti vafans, ekki gerandinn. Þessi afbrot eru þess eðlis að reglan um sönnunarbyrði eins og hún er viðhöfð í öðrum málum er næstum ónothæf sökum eðli glæpanna. Margslungið líkamlegt, kynferðislegt, tilfinningalegt og félagslegt ofbeldi er allt of flókið til að hægt sé að greina það með einföldum hlutbundnum sönnunum. Vægi annarra þátta í rannsókn slíkra mála þarf að gera veigameira og haldbetra fyrir dómi svo hægt sé að ná fram réttlæti þar sem afbrotamenn eru dæmdir og þolendur fá réttlætinu fullnægt, því litla sem hægt er að fá eftir þá eyðileggingu sem slík brot valda. Þá vil ég algera endurskoðun á þeim lögum sem snúa að þessum málum og ég vil sjá markvissa þjálfun lögreglu um allt land, þannig að hún sé fær um að taka á slíkum málum
  • Húsnæðisvandamál. Landsbyggðin á eitt stórt sameiginlegt vandamál; húsnæðismálin. Stór hluti húsa og íbúða er nýttur sem sumardvalarstaður. Kostnaður við nýbyggingar er slíkur að húsaleiga dekkar hann ekki. Að byggja til að selja er nánast útilokað, því fólk veigrar sér við því að kaupa eignir sem það óttast að verði verðlausar með tímanum. Eldra fólk í mörgum sveitarfélögum, hefur enga valkosti hvað hentugt húsnæði varðar. Það flytur síður og þá losna ekki eignir fyrir aðflutta eða ungt fólk sem vill byrja sinn búskap. Þetta er vítahringur sem þarf að rjúfa. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun!
  • Ég vil endurskoða utanríkisstefnu Íslands. Við erum og verðum alltaf háð utanríkisverslun og því verðum við að sinna vel og formlega mörgum heimssvæðum og löndum. Við skorumst ekki undan gagnkvæmni þjóða í utanríkismálum. Við þurfum að byggja upp vel mannaða utanríkisþjónustu, þar sem reynsla, þekking, geta og hæfni er ofar flokksskírteinum. Að mínu mati erum við miklir eftirbátar samkeppnis- og viðskiptaþjóða okkar þegar kemur að hæfni og getu okkar utanríkisþjónustu
  • Við þetta bætast svo þau málefni sem á ykkur brenna, eins og t.d. búvörusamningurinn, því þingmenn svæðisins eru málpípur fólksins sem þar býr og verkfæri þeirra í þágu svæðisins. Því er þessi upptalning síður en svo tæmandi.

Ég vil leiða lista Pírata í kjördæminu í næstu kosningum og stuðla þannig að auknum og afgerandi áhrifum Pírata við mótun næstu ríkisstjórnar. Ég legg mikið undir og ég ætla mér að komast í þá stöðu að geta verið raunhæfur og óumdeildur málsvari þeirra hagsmuna sem einkenna Norðvesturkjördæmi. Sá landshluti sem setið hefur hvað mest og lengst eftir, verður að láta rödd sína heyrast.

Við þurfum betra Ísland og eigum skilið betra Ísland!

Kær kveðja – Þorgeir Pálsson