04/10/2024

Þögn í kjölfar kosninga

Aðsendar greinar: Arnar S. Jónsson
Sameiningarhugur í sveitarfélögum á Ströndum er ekki mikill. Það er óumdeilanleg staðreynd sem var staðfest með afgerandi hætti í kosningunum fyrr í þessum mánuði. Í þeim höfnuðu fjögur sveitarfélög tillögum sameiningarnefndar en Broddaneshreppur, sem er fátækastur af íbúum af öllum hreppum á Ströndum, samþykkti tillöguna. Úrslitin eru nokkuð afgerandi og skýr þegar á heildina er litið; 67,6% sögðu nei og 32,1% sögðu já.

Ég get ekki sagt að ég hafi myndað mér harða skoðun á því hvort sameining sveitarfélaga á Ströndum sé vænlegur kostur eða ekki – og í raun skiptir það ekki máli eftir hina afgerandi niðurstöðu. Hins vegar veldur þögnin sem ríkir í kjölfar kosninganna mér nokkrum áhyggjum.

Strandir í vanda?

Ég get ekki annað en túlkað þögnina á þann veg að kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna séu hér um bil að ljúka við að varpa öndinni léttar (a.m.k. þeir sem ekki vildu sameiningu og ég hugsa að þeir séu fleiri en hinir), þeir eru búnir að sleppa frá klóm sameiningarnornarinnar og geta haldið áfram að starfa í friði hver í sínum hreppi. Ef þetta er rétt eru Strandir í vanda.

Sveitarstjórnir verða að byggja á þeirri vinnu sem hefur verið unnin í undirbúningi og aðdraganda kosninganna og halda þannig áfram að þróa sameiginlega stefnu og markmið allra sveitarfélaganna á svæðinu. Menn mega heldur ekki skella hurðinni á að kanna sameiningarmöguleika. Það er ljóst að ef þróun síðustu ára heldur áfram verður íbúafjöldi í Árneshreppi og örugglega Broddaneshreppi lægri en fimmtíu íbúar mjög fljótlega. Samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum verður að sameina slík sveitarfélög öðru sveitarfélagi eftir þrjú ár undir lágmörkunum. Það er ekki öruggt að hreppurinn sem hin fámennu sveitarfélög ættu að sameinast við fái nokkuð um þann gjörning að segja og það ættu menn að byrja að búa sig strax undir.

Aukið samstarf = meiri árangur!

Það hefur sjálfsagt aldrei verið hentugra fyrir sveitarfélögin á Ströndum að taka upp nánara samstarf en áður. Ástæðan fyrir því er auðvitað hið mikla starf sem ég reikna með að hafi verið unnið innan samstarfsnefndar sveitarfélaga á Ströndum, en sú ágæta nefnd undirbjó t.d. kynningarefni fyrir sameiningarkosningarnar. Í kynningarefninu var að finna hugmyndir um framtíðaráherslur í ýmsum málaflokkum, óháð því hvort af sameiningu yrði eða ekki. Það eru einmitt þessar framtíðaráherslur og hugmyndir sem menn þurfa að leggjast yfir núna, ræða þær og kryfja í víðu samhengi og byrja síðan að framkvæma og fylgja þeim úr hlaði. Ekki væri úr vegi að fá utanaðkomandi aðila (glöggt er gests augað) til að koma saman viðamikilli skýrslu sem vegur og metur markmiðin og áherslurnar. Sveitarfélögin ættu síðan að vinna að því að ná þessum markmiðum líkt og um eitt sveitarfélag væri að ræða – eini munurinn væri sá að þau væru með aðgreindan fjárhag.

Ef menn leggja ekki af stað í þessa vinnu mjög fljótlega er hætt við að hin þrúgandi þögn í kjölfar kosninganna verði varanleg. Góð og öflug samvinna sveitarfélaga í milli auðveldar þeim að ná árangri í hinum ýmsu baráttumálum; t.d. hinum títtnefndu samgöngumálum. Þetta er svo morgunljóst!

Vonandi mun ég lesa fréttir að heiman innan fárra vikna um eitthvað sem bendir til þess að sveitarfélögin á svæðinu ætli að efla samvinnu sína gríðarlega. Strandir þurfa ekki að vera ein stjórnsýsluleg eining til að ná fram markmiðum sínum, stórum eða smáum. Það eina sem þarf er að standa saman. Vonandi bera hreppsnefndir á Ströndum gæfu til þess að taka af skarið og hefja öfluga samvinnu og stefnumótun á markmiðum og framtíðaráherslum svæðisins í heild – og vonandi gerist það sem allra fyrst.