22/12/2024

Þjóðin vildi fá að eiga Landssímann

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Senn er Landssími Íslands allur. Almannaþjónustu, sem hefur verið í sameign þjóðarinnar og stolt hennar í hartnær 100 ár, hefur nú verið fórnað á altari einkavæðingar og markaðsbrasks. Allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar var andvígur sölu Símans. Hefur sú andstaða vaxið frekar en hitt. Gallupkönnun í mars 2002 sýndi að 61% þjóðarinnar var afar andvígt sölu Landssímans.

Könnun Félagsvísindastofnunar í febrúar 2005 sýndi að 70% þjóðarinnar voru andvíg sölu grunnfjarskiptakerfis Símans. Og í þjóðarpúlsi Gallups í mars 2005 voru 76% þjóðarinnar andvíg sölu á grunnfjarskiptakerfi þjóðarinnar, Landssímanum.

Og þrátt fyrir að salan hafi farið fram og umræðan látin snúast um öll þau vanræktu góðverk sem á að vinna fyrir söluandvirðið er enn stærstur hluti aðspurðra andvígur sölunni samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups.
Staðfestist þar með enn frekar stefna vinstri-grænna í þessu máli sem lögðust alfarið gegn sölunni og kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa stærstu einkavæðingu almannaþjónustu á Íslandi.

Vitlausasta einkavæðing þessarar ríkisstjórnar

Almannaþjónusta eins og fjarskipti er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu og atvinnulífi um allt land. Síminn er tengdur inn á hvert heimili í landinu. Landssíminn hefur skilað drjúgum arði í ríkissjóð, milli 6 og 7 milljörðum króna á sl. ári. Sala Símans er ein vitlausasta einkavæðing þessarar ríkisstjórnar.
Enginn góður bóndi myndi selja bestu kúna úr fjósinu.

Ríkisstjórnin hælist nú um að sala Landssímans klúðraðist 2001 því síðan hafi hann hækkað í verði um 30 milljarða og auk þess skilað um 10 milljarða arði í ríkissjóð á sl. 3 árum.

Hver yrði nú hagnaðurinn næstu árin ef við hefðum borið gæfu til að eiga hann áfram? Ríkisstjórnin montar sig af háu söluverði, 67 milljörðum króna. En samkvæmt arðsemisspá munu nýir eigendur fá kaupverðið greitt á næstu 10-12 árum. Flestir munu nú kalla þetta gjöf en ekki sölu.

Félagshyggja Framsóknarflokksins týnd og tröllum gefin

Stefna vinstri-grænna hefur ávallt verið skýr í þessu máli: Grunnfjarskiptakerfið á að vera í sameign þjóðarinnar þannig að hægt sé að tryggja jafnrétti í verði og gæðum þessarar þjónustu um allt land.
Það átti að beita styrk Landssímans til að koma upp gsm-þjónustu um alla helstu vegi og byggðir landsins.
Nú verður sú fjarskiptaþjónusta sem ekki uppfyllir stífustu arðsemiskröfur fyrirtækis á markaði að vera komin upp á náð sérstakra fjárveitinga ríkisins. Þegar frá líður hygg ég að mörgum landshlutanum, sveitabænum, sjávarþorpinu þyki þeir verða afskiptir og hafðir útundan í fákeppni einkavæddra fjarskipta. Þar ræður krafan um hámarksarð ein för.

Hvernig líður nú hinum almenna kjósanda Framsóknarflokksins að horfa upp á blinda einkavæðingu flokksforystunnar? Samkvæmt öllum skoðanakönnunum voru um 70% kjósenda flokksins við síðustu kosningar andvígir sölu Landssímans.

Blessuð sé minning Landssíma Íslands

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landssímans.
Ríkisstjórnarflokkarnir þorðu það ekki. Þeim var mikið í mun að einkavæða Landssímann og afhenda hann fjármálamarkaðnum.

Í einkavæðingaræðinu er ekkert heilagt og hin dýru samfélagsgildi falla nú fyrir borð hvert af öðru. Þjóðin hefur sýnt í skoðanakönnunum að hún vill annað. Sú þarf einnig að verða raunin í næstu kosningum.