04/10/2024

Skilyrði fyrir Arnkötluvegi

Skipulagsstofnun hefur fallist á framkvæmdir við vegalagningu um Arnkötludal og Gautsdal með ákveðnum skilyrðum. Þau eru helst að framkvæmdaraðili þarf að standa fyrir endurheimt votlendis á Vestfjörðum eða Vesturlandi, í samráði við hlutaðeigandi landeigendur og sveitarstjórnir, sem er a.m.k. til jafns að flatarmáli og það votlendi sem raskast eða verður fyrir áhrifum við veglagninguna. Þá þarf að tryggja að á varptíma, frá maílokum og fram undir ágústlok, standi ekki yfir framkvæmdir á svæði frá Hrófá að Vonarholti í Arnkötludal og við Foss í Gautsdal.

Þá skal tryggja að grugg berist ekki í fiskgenga læki og ár á tímabilinu 15. júní til 30. september og hafa þarf samráð við Umhverfisstofnun um eftirtalin atriði: Endanlega afmörkun efnistökusvæða, vinnslutilhögun og frágang þeirra, sem og útfærslu skeringa. Þá skal framkvæmdaraðili tryggja að fornleifafræðingur verði á vettvangi til eftirlits á þeim svæðum sem minjar geta leynst undir yfirborði og að láta grafa könnunarskurð í gegnum túngarðinn við Vonarholt og kanna garðlög við tiltekna námu. 

Úrskurðinn má nálgast í heild sinni með því að smella hér: www.strandir.saudfjarsetur.is/skjol/Urskurdur-Arnkotludalur.pdf. Samkvæmt hefðbundnum gangi mála sem þessara tekur nú við kærufrestur, en kæra má úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Kærufrestur í þessu tilviki er til 14. október 2005.