Heilmiklar framkvæmdir hafa verið í gangi síðustu mánuði við að endurnýja stálþil við bryggjuhausinn á hafskipabryggjunni á Hólmavík. Nú hefur hafnarstjórn Strandabyggðar í framhaldi af því boðið út verkefni við að ganga frá lögnum og steypa þekju á bryggjuna í samvinnu við Siglingastofnun. Samkvæmt vef Siglingastofnunar er um að ræða lögn ídráttarröra og þekjusteypu ásamt frágang á rafbúnaði og lýsingu og eru helstu magntölur þær að ídráttarrör eru um 600 metrar og steypt þekja er 956 m². Verkinu á að vera lokið eigi síðar en 1. september 2012, en tilboð verða opnuð þriðjudaginn 5. júní kl. 11:00.
Útboðsgögn verða afhent á skrifstofu Siglingastofnunar, Vesturvör 2, Kópavogi og á skrifstofu Strandabyggðar að Höfðagötu 3 á Hólmavík frá og með þriðjudeginum 22. maí 2012, gegn 5.000,- kr. greiðslu.