30/10/2024

Þakkir frá Jóhanni Guðmundssyni

Ingimundur og JóhannJóhann Guðmundsson, rennismiður á Hólmavík, hefur beðið strandir.saudfjarsetur.is að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem glöddu hann með vináttu og hlýhug á áttræðisafmælinu á dögunum. Eins og fram kom um áramótin á strandir.saudfjarsetur.is stóðu börn Jóhanns fyrir opnu húsi með kaffiveitingum á Café Riis fyrstu helgi ársins, að loknum óvæntum tónleikum í Hólmavíkurkirkju. Svo virðist sem flestir aðrir en Jóhann hafi vitað af tónleikunum, því að hvert sæti í kirkjunni var skipað. Þá mættu um 120 manns í afmæliskaffið. Allt var þetta langt umfram vonir og væntingar Jóhanns og færði honum ómælda gleði.

Jóhann fékk ný heyrnartæki af fullkomnustu gerð í afmælisgjöf frá börnum sínum, ættingjum og vinum. Þátttaka í því uppátæki var sömuleiðis langt umfram væntingar, og þegar upp var staðið þurfti hann aðeins að reiða fram nokkur þúsund krónur úr eigin vasa. Samtakamátturinn er mikill þegar margir leggjast á eitt og það er ekki amalegt að búa í slíku samfélagi.

Á myndinni sem fylgir fréttinni er Jóhann (nær) með Ingimundi bróður sínum. Myndina tók Jóhanna Stefáns á afmælistónleikunum í Hólmavíkurkirkju 3. janúar síðastliðinn.