22/12/2024

„Það er vert að halda því til haga“

VegirÍ nýlegum pistli á vefsíðu sinni rifjar Grímur Atlason sveitarstjóri Dalabyggðar upp frestun ríkisstjórnarinnar á framkvæmdum haustið 2006, en eins og menn muna flögguðu vegagerðarmenn á Vestfjörðum í hálfa stöng vegna ákvörðunar um þessa frestun sumarið 2006. Í pistlinum segir Grímur: "Haustið 2006 var þenslan í hámarki á vissum svæðum. Þáverandi ríkisstjórn brá á það ráð að fresta framkvæmdum sem voru í pípunum til að slá á þessa þenslu. Aðferðin var afleit eins og flestir vita enda bitnaði hún eingöngu á svæðum þar sem enga þenslu var að finna og hafði þannig fátt gott í för með sér. Um var að ræða framkvæmdir við vegleysur og hálsa sem íbúar viðkomandi svæða hafa þurft að láta bjóða sér sem þjóðbraut um allt of langan tíma."

Og áfram heldur Grímur Atlason, sveitarstjóri Dalabyggðar:

"Þáverandi samgönguráðherra taldi af og frá að frestunin hefði nokkur áhrif á verklok t.d. Djúpvegar og nýjan veg um Arnkötludal. Þeir sem gagnrýndu ríkisstjórnina og héldu fram hinu gagnstæða var svarað fullum hálsi og sagt að þeir færu með rangt mál. Í grein sem birtist á strandir.saudfjarsetur.is þann 6. desember 2006 sagði þáverandi samgönguráðherra m.a.: Þrátt fyrir frestun á framkvæmdum í sumar er gert ráð fyrir að hægt verði að aka um Arnkötludal á nýjum vegi árið 2008. Á fundi sveitarstjórnarmanna af Vestfjörðum og ríkisstjórnarinnar skömmu síðar barði Geir H. Haarde í borðið og sagði að það hefði ekki verið nein frestun framkvæmda. Hann hreinlega hrópaði á fundarmenn sem höfðu þó ekki gert annað af sér en að benda á staðreyndir.

Núna er haustið að koma og árið er 2008. Keyrum við um Arnkötludal þetta árið? Nei, það gerum við ekki. Frestun framkvæmda til að slá á ofurþensluna og vonda efnahagsstjórnun skilaði þessum ljómandi árangri. Það er vert að halda því til haga."