05/10/2024

Tengslanet vestfirskra kvenna stofnað

Í dag, fimmtudaginn 8. október, verður stofnað á Ísafirði Tenglsanet
vestfiskra kvenna. Tilgangur Tengslanetsins er fyrst og fremst að
sameina konur á Vestfjörðum, efla samstöðu þeirra, þekkingu og samstarf
í þeim tilgangi að styrkja hagsmuni þeirra og efla konur persónulega og
á hverjum þeim vettvangi sem þær kjósa eða hafa kosið að hasla sér
völl. Stofnufundurinn verður
haldin í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu og hefst kl. 18.00. Þar verður
greint nánar frá tilurð félagsins, konur frá Austurlandi koma og kynna
Tengslanet austfiskra kvenna og konur úr atvinnulífinu vestra munu kynna sína starfsemi.


Tengslanet vestfirskra kvenna mun beita sér fyrir því að hvetja konur til áræðni,
frumkvöðlastarfs og samfélags- og stjórnmálaþátttöku á opinberum
vettvangi og hefur að markmiði að auka sýnileika og tækifæri kvenna,
hvort sem er á persónulegum eða opinberum vettvangi og einnig að stuðla
að virðingu og verðskuldaðri athygli samfélagsins á framlagi kvenna.

Markmiðið
er að ná til kvenna um alla Vestfirði og verða reglulegir fundir
haldnir yfir vetrarmánuðina, auk þess sem staðið verður fyrir
sameiginlegum viðburðum og námskeiðum allt í þeim tilgangi að styrkja
og efla hagsmuni kvenna á Vestfjörðum.

Tengslanetið er ætlað öllum konum
sem hafa áhuga á að styrkja hagsmuni sína og efla sig persónulega, en
nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Ásgerði Þorleifsdóttur hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða í síma 450
3053.
Tengslanetið er stofnað af frumkvæði vestfiskra kvenna og er styrkt af Vaxtarsamningi Vestfjarða.