Á vefnum www.reykholar.is er frá því sagt að dálítill hópur skákfólks ætlar að hittast og tefla á Reykhólum á fimmtudagskvöld kl. 20. Allir eru velkomnir og ekki væri verra að fá nærsveitunga af Ströndum og úr Dalabyggð í heimsókn, rétt eins og Reykhólamenn fara jafnan til Hólmavíkur og spila brids. Ákveðið verður í sameiningu hvaða tími verður á hverja skák. Teflt verður í sal á efri hæð Dvalarheimilisins Barmahlíðar og eru þeir sem kost eiga á beðnir að hafa með sér töfl og klukkur.
Stefnt er að því að þetta skákkvöld á Reykhólum verði hið fyrsta af mörgum og teflt verði framvegis vikulega á sama stað og tíma. Ef nánari upplýsinga er óskað má t.d. hafa samband við Eirík Kristjánsson eða Guðjón Dalkvist Gunnarsson (Dalla) á Reykhólum.