22/12/2024

„Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“

Fréttatilkynning
Til fyrirmyndar er yfirskrift hvatningarátaks í tilefni af því að hinn 29. júní næstkomandi verða 30 ár liðin frá því að Íslendingar voru til fyrirmyndar með því að vera fyrstir þjóða til að kjósa konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum. Með átakinu, sem er tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni, eru landsmenn hvattir til að gefa sér tíma til að staldra við og huga að því sem vel er gert, jafnt stóru sem smáu.

Þriðjudaginn 29. júní er fólk hvatt til að taka þátt í átakinu með því að skrifa bréf sem ber yfirskriftina „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar.“ Bréfið má senda til fjölskyldu, vina, vinnustaða, félagasamtaka eða annarra sem bréfritarar telja hafa verið til fyrirmyndar á einn eða annan hátt. Bréfsefni verður dreift inn á heimili um allt land dagana 29. og 30. júní. Bréfin má setja ófrímerkt í póst.

„Með átakinu leggjum við m.a. áherslu á samræður og þakklæti sem Vigdísi hefur verið hugleikið í gegnum tíðina. Með því að leiða hugann að því sem okkur þykir til fyrirmyndar auðveldum við okkur að finna hvaða leiðir við viljum velja til framtíðar sem einstaklingar, fjölskyldur, skólar, vinnustaðir og síðast en ekki síst sem þjóð,“ segir Ingibjörg Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Til fyrirmyndar.

Í hádeginu þann 29. júní flytur Laura Lizwood, framkvæmdastjóri Council of Women World Leaders, hátíðarfyrirlestur á vegum Háskóla Íslands og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, um sögulegt kjör Vigdísar og þýðingu þess fyrir baráttu kvenna víðs vegar um heim. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, Háskóla Íslands, Sturlugötu 7, og hefst hann kl. 12:00. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, verður fundarstjóri.

Vefur átaksins verður opnaður í dag, 24. júní, á slóðinni www.tilfyrirmyndar.is. Á vefnum er fjallað um gildi fyrirmynda í pistlum og viðtölum. Hægt er að benda á einstaklinga og verk sem fólki finnst vera til fyrirmyndar og þess óskað að sem flestir taki þátt og sendi inn ábendingar. Á vefnum eru einnig birt fróðleikskorn úr tveimur meistaraprófsritgerðum um fyrirmyndir.

Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hafa gengið til liðs við verkefnið. ,,Allir hafa verið boðnir og búnir að leggja átakinu lið og gefa vinnu sína til að það megi verða að veruleika. Sú samvinna sem hefur átt sér stað hefur því verið algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Ingibjörg. Að verkefninu standa Exedra, Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, LeiðtogaAuður, Félag kvenna í atvinnurekstri og Emblur, ásamt fjölda fyrirtækja og einstaklinga. Nánari upplýsingar er að finna á vef verkefnisins: www.tilfyrirmyndar.is.