11/09/2024

Sýslumannsembætti verður áfram á Hólmavík

Kristín Völundardóttir sýslumaður á Hólmavík hefur sent vefnum strandir.saudfjarsetur.is svohljóðandi tilkynningu: "Af gefnu tilefni verður að árétta að setning sýslumannsins á Hólmavík til að gegna embætti sýslumannsins á Ísafirði frá 1. september n.k. til 31. desember s.á., felur hvorki í sér tilraun til að leggja niður sýslumannsembættið á Hólmavík né býr þar að baki sameining þess við sýslumannsembættið á Ísafirði. Strandamenn, sýslumannsembættið á Hólmavík mun starfa áfram með hefðbundnu sniði, hvort sem það er á næstu mánuðum eða árum."

Umræða hefur verið um það á Ströndum í tengslum við flutning Kristínar Völundardóttur sýslumanns á Ísafjörð, þar sem hún mun gegna embætti sýslumanns næstu fjóra mánuði, hvort um sé að ræða fyrsta skrefið í að leggja niður sýslumannsembættið á Hólmavík og setja það undir Ísafjörð.

Ekki er langt síðan dómsmálaráðuneytið lýsti áætlunum um að flytja verkefni til þeirra sýslumannsembætta sem lögreglustjórn hyrfi frá og er sýslumannsembættið á Hólmavík á meðal þeirra. Þegar hafa verið flutt viðamikil og atvinnuskapandi verkefni á Blönduós, svo dæmi sé nefnt. Mörgum Strandamönnum finnst þeir hins vegar sjá fáar vísbendingar um svipaða atvinnuuppbyggingu á vegum ríkisins í héraðinu og ýmsir í hópnum búast jafnvel frekar við niðurskurði á starfsemi ríkisvaldsins á svæðinu.