22/12/2024

Sýslumaður skiptir um embætti

í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneyti í dag segir að ráðherra hafi ákveðið að Áslaug Þórarinsdóttir, sýslumaður á Hólmavík, verði flutt í embætti sýslumannsins í Búðardal. Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður í Búðardal, verður flutt í embætti sýslumannsins í Vík. Ákvarðanirnar öðlast gildi frá og með 1. janúar 2006 segir í fréttatilkynningunni. Í vefritinu bb.is er haft eftir Áslaugu að hún hafi sjálf óskað eftir flutningi.

 „Ég óskaði eftir þessu og líst mjög vel á að taka við starfinu í Búðardal. Það eru persónulegar ástæður fyrir því að ég vil flytja mig um set að svo stöddu. Mér hefur líkað afar vel hér á Ströndum og það var ekki þess vegna sem ég óskaði eftir flutningi“, segir Áslaug. Aðspurð um hver helsti munurinn sé á þessum tveimur embættum segist Áslaug telja þau frekar svipuð. „Ég held að það séu ívið færri íbúar í Búðardalsumdæmi. Það sem sker úr hér er að þjóðvegur eitt liggur um umdæmið, það er Holtavörðuheiðin. Annars eru þetta mjög svipuð embætti“. Þá segir Áslaug að embætti sýslumanns á Hólmavík eigi að auglýsa á næstu dögum.

Áslaug var skipuð í embætti sýslumannsins á Hólmavík  15. mars 2002.