Fyrsti súpufundur vetrarins var haldinn í Pakkhúsinu á Café Riis í hádeginu í dag. Er ætlunin að súpufundir verði reglulega í hádeginu á fimmtudögum í vetur og er fundaröðin á vegum Þróunarsetursins á Hólmavík. Á þessum fyrsta súpufundi vetrarins kynnti Jón Eðvald Halldórsson starfsemi Kaupfélags Steingrímsfjarðar sem var stofnað 1898 og á eftir urðu líflegar umræður um sögu félagsins, markmið, stöðu og framtíð.
Fundar- og umræðustjóri að þessu sinni var Jón Jónsson menningarfulltrúi hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Er þeim sem hafa áhuga á að kynna fyrirtæki, stofnun, félag eða önnur verkefni sem tengjast mannlífi og menningu í héraðinu á súpufundi, bent á að hafa samband við Þorgeir Pálsson eða Jón Jónsson sem hafa aðstöðu í Þróunarsetrinu, en þeir stýra súpufundaröðinni í vetur.
Næsta fimmtudag kl. 12:05 mun Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur segja frá, kynna og jafnvel setja á laggirnar fyrirhugaðan veðurklúbb á Ströndum. Súpufundurinn fimmtudaginn 7. nóvember fer fram í Pakkhúsinu á Café Riis og verður nánar kynntur síðar.
Súpufundur á Café Riis – Jón Eðvald Halldórsson kynnir Kaupfélagið – ljósm. Jón Jónsson