Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru sumarvegirnir um Tröllatunguheiði og Þorskafjarðarheiði enn lokaðir vegna ófærðar, en vegurinn um Steinadalsheiði milli Gilsfjarðar og Kollafjarðar er sagður þungfær. Hálkublettir eru á Strandavegi í Árneshrepp, norðan Bjarnarfjarðar og að Gjögri. Vegurinn um Arnkötludal er ennþá lokaður nú að morgni 1. október og unnið að lokafrágangi á honum. Vegfarendur aka því að venju um sunnanverðar Strandir, en rétt er að vara við því að vegurinn milli Þorpa og Heydalsár í Steingrímsfirði er óvenju slæmur, holóttur og hörmulegur, og þyrfti á veghefli að halda. Samkvæmt gildandi Samgönguáætlun 2007-2010 á að leggja nýjan veg á þessum 4 km vegarkafla á árinu 2010.