22/12/2024

Sumarmölin á Drangsnesi verður 11. júní

sumarmolin
Tónlistarhátíðin Sumarmölin á Drangsnesi fer fram í fjórða sinn þann 11. júní næstkomandi. Á hátíðinni skapast jafnan einstök stemning þar sem fólk á öllum aldri kemur saman til að njóta tónlistarflutnings margra af fremstu listamanna þjóðarinnar í einstöku umhverfi. Sumarmölin fer venju samkvæmt fram í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Í ár koma fram FM Belfast, Hjaltalín, Karó, Kippi Kaninus, Rúna Esra, Snorri Helgason og Úlfur Úlfur. Eftir tónleikana mun hinn geðþekki DJ Hermigervill svo þeyta skífum á Malarkaffi fyrir þá sem hafa ekki fengið nóg af tónlist og stuði.

Sú nýbreytni verður á Sumarmölinni í ár að boðið verður upp á dagskrá á föstudagskvöldinu þar sem uppistandararnir Saga Garðarsdóttir og Hugleikur Dagsson munu troða upp á Malarkaffi.

Miðaverð á Sumarmölina er 5.900 kr. og ókeypis fyrir 12 ára og yngri. Miðasala fer fram á Tix.ix. Athugið að 18 ára aldurstakmark er á viðburðinn en yngri gestir eru sérstaklega velkomnir í fylgd fullorðinna.

Sumarmölin er haldin í samstarfi við Rás 2, Ölgerðarina og Malarhorn og nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, Tónlistarsjóðs og Sparisjóðs Strandamanna.