29/04/2024

Skemmtilegar umræður á fundi J-listans

J-listi félagshyggjufólks sem bíður fram í sameinuðum Hólmavíkur- og Broddaneshreppum hélt opinn fund í anddyri félagsheimilisins á Hólmavík í gærkvöld. Fundurinn sem var sæmilega sóttur var á köflum með óformlegum hætti þar sem frambjóðendur og gestir supu á kaffi og spjölluðu um málefni sem eru þeim ofarlega í huga, en þess á milli svöruðu efstu menn á listanum beinskeyttum fyrirspurnum frá gestum. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is fór á staðinn og punktaði hjá sér ýmislegt sem fram kom á fundinum og spjallaði síðan nánar við frambjóðendur. 

Í máli Rúnu Stínu Ásgrímsdóttir sem skipar 1. sæti listans við upphaf fundar kom fram að hún væri mjög ánægð með fólkið á listanum og að allir sem þar sætu hyggðust gera sitt besta til að vinna að heill og framtíð sveitarfélagsins. Mjög góður andi væri í hópnum og skemmtilegar umræður hefðu skapast þar um einstök mál. Jón Gísli Jónsson sem skipar baráttusætið bætti við að J-listinn væri mjög vel skipaður og þar væri enginn til uppfyllingar. Listinn stefndi að öflugu samráði allt kjörtímabilið og menn myndu skipta töluvert með sér verkefnum og vinna á þeim sviðum þar sem þeir væru sterkastir fyrir. Eins yrði markvisst leitað eftir samráði við þá sem best þekkja til í málaflokkum sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Listinn væri ekki flokkslisti heldur þverpólitískur, en það væri kostur en ekki galli að menn hefðu ólíkar skoðanir og viðhorf í einstökum málum og ynnu sig síðan að sameiginlegri niðurstöðu.

Spurt var um sveitarstjóraembættið og hvort J-listinn hyggðist endurráða núverandi sveitarstjóra eða auglýsa eftir nýjum. Fram kom að hugmyndin væri, kæmist listinn til valda, að byrja á að ræða við núverandi sveitarstjóra um áframhaldandi störf og sjá hvort ekki næðist samkomulag. Fram kom að nái listinn meirihluta verði Valdemar Guðmundsson sem skipar 2. sæti listans oddviti fyrst um sinn, en oddviti sé annars kosinn árlega og alls ekki væri útilokað að breytingar yrðu á því á kjörtímabilinu.

Nokkuð var rætt um skort á upplýsingaflæði í sveitarfélaginu og lýðræðislega umræðu um einstök mál. Kom fram að stefna listans er að gera allmiklar umbætur á allri upplýsingagjöf og leitast við að ná fram almennri og lýðræðislegri umræðu um málefni áður en ákvarðanir eru teknar. Gefa þurfi íbúum færi á að koma skoðunum sínum á framfæri og upplýsingar um verkefni og stöðu hreppsins þurfi að vera aðgengilegar  hverju sinni. Halda á íbúafundi tvisvar á ári og gefa íbúum færi á að hitta hreppsnefndarmenn listans og ræða beint við þá um einstök mál, auk þess sem sveitarstjóri hefur viðtalstíma. Spurt var um birtingu fundargerða nefnda og hreppsnefnda á vefnum og kom fram það álit frambjóðenda að sú þjónusta við íbúa væri sjálfsögð í nútímasamfélagi og slíkt yrði að sjálfsögðu gert.

Töluvert var rætt um atvinnumál og þá sérstaklega ferðaþjónustu, landbúnað og nýsköpun. Fram kom að stefnt er að sérstakri atvinnumálanefnd í sveitarfélaginu sem vinni markvisst að þessum málaflokki og leiti eftir nýjum sóknarfærum í samvinnu við atvinnufulltrúa Atvinnuþróunarfélagsins á Hólmavík. Nokkuð var rætt um möguleika á frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu, möguleika á litlum virkjunum í dreifbýli og viðraðar ýmsar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu.

Í samgöngumálum kom m.a. fram fyrirspurn um áherslu sem lögð er á veginn um Arnkötludal í kynningarbæklingi J-listans og hvort það mál væri ekki allt saman klappað og klárt. Fram kom að til stæði að bjóða verkið út í haust, en þangað til vegagerðin sjálf væri hafin þyrftu menn að halda vöku sinni og halda áfram að þrýsta á stjórnvöld. Töluverð umræða varð um malbikun gatna á Hólmavík og sögðu frambjóðendur ótækt annað en verulegar umbætur yrðu gerðar á því sviði á næsta kjörtímabili. Í málefnum dreifbýlisins kom fram að þar yrði einnig að þrýsta verulega á stjórnvöld um umbætur í vegagerð og snjómokstri á tengivegum. 

Töluverð umræða varð einnig um umhverfismál þar sem allir fundarmenn virtust sammála um að gera þyrfti stórátak, íþrótta- og æskulýðsmál, félagsmál, málefni eldri borgara og varð nokkur umræða um hvað mætti betur fara á þessu sviði. J-listinn hyggst beita sér fyrir að íþróttavöllur verði gerður við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík og einnig að skoða vandlega hvort hægt sé að ráða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til starfa.

Í framhaldi af þessu voru frambjóðendur spurðir um kostnað við framkvæmdir og hvort heppurinn réði við þann kostnað sem fylgdi ýmsu sem stefnt væri að af hálfu listans. Var því svarað til að það væri enginn leið fyrir sveitarfélagið sem væri í varnarbaráttu og í samkeppni við önnur svæði um íbúa að halda að sér höndum með alla uppbyggingu. Framfarahugur yrði að vera ríkjandi og allra leiða leitað til að framkvæmdir gætu orðið. Það væri forsendan fyrir því að snúa vörn í sókn hvað byggðaþróun varðar.

Fjölmargt fleira var rætt á fundinum sem stóð í tæpa tvo tíma og ýmsar spurningar komu fram sem frambjóðendur höfðu fá svör við og játuðu að hefðu lítið verið rætt í þeirra hóp ennþá, m.a. um samvinnu sveitarfélaga á Ströndum, morgunverðarstað á Hólmavík, lúpínu í Borgunum, stuðning vegna tónlistarnáms á framhaldsstigi, leit að heitu vatni og fleira. Þetta ætti eftir að skoða, ræða og taka skynsamlegar ákvarðanir. Létt var yfir frambjóðendum, en allir tíu meðlimir listans voru mættir.