22/12/2024

Stytting opnunartímabils dregin til baka

Erindi frá Strandagaldri til sveitarstjórnar Strandabyggðar var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi í gærkvöldi þar sem lýst var áhyggjum vegna fyrirhugaðrar styttingar á opnunartíma Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík sem samþykkt var fyrir skömmu. Strandagaldur áleit að sú samþykkt gangi þvert gegn þeirri stefnu ferðaþjóna á svæðinu að stuðla að lengingu ferðamannatímabilsins. Strandagaldur fór þess á leit að endurskoðaður yrði opnunartími Upplýsingarmiðstöðvarinnar og hún opnuð 1. júní sem fyrr, í stað 10. júní eins og áður hafði verið ákveðið. Sveitarstjórnin samþykkti að verða við erindinu með þremur greiddum atkvæðum.

Báðir fulltrúar H-listans greiddu atkvæði gegn erindinu þrátt fyrir góðan ásetning um eflingu miðstöðvarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar fyrir ári síðan. Í kosningabæklingi sem H-listinn gaf út fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar er að finna vandaða klausu um ferðamál þar sem tekið er skýrt fram að stefna listans sé að starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar dafni áfram og að uppbygging vandaðrar ferðaþjónustu sé eitt besta vopn sem dreifbýlisfólk hefur í varnarbaráttunni gegn fólksfækkun á landsbyggðinni.

Stefnumál H-listans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2006 má finna með því að smella á þennan tengil og stefnumál J-listans, sem fer með meirihluta í sveitarstjórn Strandabyggðar, með því að smella hér.