28/03/2024

Styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum

Ferðamálastofa hefur auglýst styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010 og er umsóknarfrestur til föstudagsins 8. janúar. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi. Í kynningu segir: "Íslensk náttúra er eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest í anda sjálfbærni. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar íslenskrar náttúru."

Styrkir skiptast í tvo meginflokka:

1. STYRKIR TIL SMÆRRI VERKEFNA ER VARÐA ÚRBÆTUR Á FERÐAMANNASTÖÐUM:
Veittir verða styrkir til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði. Ekki er veittur styrkur vegna vinnuframlags. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur.

2. STYRKIR TIL UPPBYGGINGAR Á FJÖLSÓTTUM FERÐAMANNASTÖÐUM OG NÝJUM SVÆÐUM:
Veittir verða styrkir til úrbóta í umhverfismálum og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Styrkupphæð getur að hámarki orðið 50% af kostnaðaráætlun. Verkefni þar sem skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir njóta áfram forgangs en nú verður einnig hægt að sækja um styrki fyrir skipulags- eða hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem hafa sjálfbærni og langtímamarkmið í umhverfismálum að leiðarljósi. Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir skipulag og hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.