30/10/2024

Styrkir til umhverfismála

Ferðamálastofa hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2007. Úthlutað verður um 45 milljónum króna og er umsóknarfrestur til 29. janúar 2007. Ýmsir aðilar á Ströndum hafa fengið styrki úr þessum sjóði til góðra verka og vefurinn strandir.saudfjarsetur.is minnir ferðaþjóna, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á þau gamalkunnu reynsluvísindi að það eru aðeins þeir sem róa til fiskjar sem fá.

Í fréttatilkynningu á vef Ferðamálastofu segir:

"Eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna, innlendra sem erlendra, er íslensk náttúra. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest eftir hugmyndafræði um sjálfbæra ferðaþjónustu. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru. Á liðnum árum hefur Ferðamálastofa (og áður Ferðamálaráð Íslands) lagt um 500 milljónir króna til uppbyggingar á ferðamannastöðum víðsvegar um land.

Samhliða fjölgun ferðafólks og auknu álagi á hina hefðbundnu náttúruskoðunarstaði hefur Ferðamálayfirvöld lagt áherslu á að styðja við uppbyggingu á nýjum svæðum, verkefni sem tengjast meira þjónustu og menningu viðkomandi sveitarfélaga. Tilgangurinn með þeirri áherslubreytingu er að draga úr álagi á náttúruna og auka efnahagslegan ábata af ferðaþjónustu.

Aðgengi fyrir alla

Sérstök áhersla verður í ár lögð á verkefni sem stuðla að bættu aðgengi að áningastöðum en á yfirstandandi ári hefur verið í gangi samstarfsverkefni um bætt aðgengi að útivistar- og áningastöðum. Markmiðið er að auðvelda fólki að skipuleggja ferðalög um landið m.t.t. aðgengis. Að verkefninu standa Ferðamálastofa, Öryrkjabandalagið, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtök Íslands og Ferðaþjónustu bænda. Fyrsta verkefni hópsins var að vinna viðmið fyrir ásættanlegt aðgengi hreyfihamlaðra um áningarstaði.

Þrír meginflokkar

Sem fyrr segir verður um 45 milljónum króna úthlutað að þessu sinni og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka.

Í fyrsta lagi er það styrkir til minni verkefna, þar sem hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur. Eingöngu verða veittir styrkir til efniskaupa. Til ráðstöfunar eru um 12 milljónir króna.

Í öðru lagi stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum. Verkefni sem aðallega fela í sér úrbætur og verndun á útivistar- og áningarstöðum utan alfaraleiðar, svæða eða staða sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim.

Í þriðja og síðasta lagi eru verkefni til uppbyggingar á nýjum svæðum. Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að þau nýtist ferðamönnum. Í tvo síðartöldu flokkana eru til ráðstöfunar um 33 milljónir króna samtals.

Hverjir geta sótt um?

Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum skilyrðum sem Ferðamálastofa setur. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna með tilliti til náttúruverndar. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Umsóknarfrestur er Frekari upplýsingar um styrkina veitir umhverfisfulltrúi stofnunarinnar í síma 464-9990 eða í gegnum vefpóst: valur@icetourist.is.

Hvernig er sótt um?

Umsóknir berist á rafrænu umsóknareyðubaði sem aðgengilegt hér á vefnum á meðan umsóknarfrestur er í gildi. Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri."