22/12/2024

Styrkir til nágranna Strandamanna

Fjölmörg verkefni um land allt fá styrki á fjárlögum og í þessum pistli ætlum við að nefna dæmi um ýmis verkefni sem eru styrkt hjá nágrönnum okkar Strandamanna í breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar. Nefnd eru dæmi um verkefni í Dölum, Barðastrandarsýslum, Ísafjarðarsýslum og Húnaþingi vestra. Einnig eru taldir upp styrkir í gegnum Húsafriðunarsjóð. Á Reykhólum fær Hlunnindasýningin 2 millj. og framlag til Flateyjarbókasafns á Reykhólum er 500 þúsund. Í safnahús í Búðardal eru lagðar 4 millj. og Sturlustofa í Dölum fær 600 þúsund. Ferðamálafélag Dalasýslu og Reykhólasveitar fær 1 millj.

Í V.-Barð. má nefna að Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti fær 2 millj. til umhverfisbóta við safnið og Búnaðarsamband Vestfjarða, Sögufélag Barðstrendinga og Sögufélag Ísfirðinga fá 500 þúsund vegna útgáfu rits um Vestur-Barðastrandarsýslu. Sömu aðilar fá 1,5 millj. til tölvusetningar, en ekki kemur fram hvaða útgáfu sá styrkur tengist. Í viðgerð á Maríu Júlíu BA-36 er veitt 3 millj. Í viðgerð á safni Samúels í Brautarholti er lögð 1 millj. og einnig er 1 millj. lögð í viðgerð á húsi Gísla á Uppsölum. Tálknafjarðarhreppur fær 5 millj. til uppbyggingu ferðaþjónustu og til atvinnuuppbyggingar í Vesturbyggð eru lagðar 4 millj.

Í Ísafjarðarsýslum má nefna að skíðasvæðið í Tungudal fær 5 millj. á fjárlögum samkvæmt tillögunni og nýbúamiðstöð á Vestfjörðum fær 16,3 millj. og Náttúrustofan í Bolungarvík fær 13,4 millj. Af menningarstarfsemi má nefna að Hrafnseyri fær 5,9 millj., Ósvör fær 5 millj. og safnhús í Neðstakaupstað á Ísafirði fær 4 milljónir. Harmonikkufélag Vestfjarða fær 300 þúsund og Tónlistarfélag Ísafjarðar 900 þúsund. Milljón fæst til endurbóta á Holti í Önundarfirði. Snjáfjallasetur á Snæfjallaströnd fær 2 millj. og verkefnið Vestfirðir á miðöldum 5 millj. Til viðgerða á bátnum Sædísi ÍS-67 fást 3,5 millj. og Víkingaverkefni á Vestfjörðum fær 5 millj. Verkefnið Heilsubærinn Bolungarvík fær 1 millj. og Ferðaþjónustan Grunnavík fær einnig 1 millj. Til lendingabóta í Grunnavík eru lagðar 500 þúsund og 300 þúsund í lendingarbætur við Galtarvita. Súðavíkurhreppur fær 2 millj. vegna Garðsstaða.

Í Húnaþingi vestra fær til að mynda verkefnið Grettistak 5 milljóna framlag og nýstofnað Selasetur sem ætlar að opna sýningu á Hvammstanga á næsta ári fær 4 milljónir. Þá fá skólabúðir á Reykjum 1,5 millj.

Af styrkjum í gegnum Húsafriðunarsjóð má nefna að vélsmiðjan á Þingeyri fær 5 millj., Þingeyrarkirkja í Dýrafirði 4 millj., Gamla salthúsið á Þingeyri fær 4 millj., Vatneyrarbúð á Patreksfirði 4 millj., Gamla Faktorshúsið á Ísafirði 4 millj., Gamla prestsseturshúsið á Brjánslæk á Barðaströnd 3 millj., Gamli barnaskólinn á Ísafirði 3 millj., Skjaldborgarbíó á Patreksfirði 3 millj., Eyrardalsbærinn í Súðavík 3 millj., Einarshús/Péturshús í Bolungarvík 2 millj., Miðstræti 3 í Bolungarvík 2 millj., Smiðjan í Bíldudal  2 millj. og gamlar byggingar á Stað í Reykhólasveit  2 milljónir.