29/04/2024

Stúdíó í sumarbústaðnum Brekkuseli

Upptökur í gangiNú stendur sem hæst undirbúningur fyrir útgáfu á geisladisk með frumsömdu efni eftir Bjarna Ómar Haraldsson á Hólmavík, en stefnt er að því að geisladiskurinn sem inniheldur 12 lög komi út í september. Lögin á disknum eru öll eftir Bjarna Ómar sjálfan, auk þess sem hann á helming textanna á disknum. Auk Bjarna eru tveir aðrir textahöfundar frá Hólmavík, þau Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Arnar S. Jónsson. Í textagerðinni koma einnig við sögu Jónas Friðrik Guðnason, Oddur Bjarni Þorkelsson, Þorgerður Þóra Hlynsdóttir og Helgi Jónsson.

Upptökur fyrir diskinn hafa farið fram á Akureyri í hljóðveri Kristjáns Edelstein þar sem trommur voru teknar upp og í Hornslet studios í Danmörku þar sem aðalsöngurinn var tekinn upp í júlí ásamt ýmsum hljóðfærum í grunna. Einnig var tekið upp í sumarbústaðnum Brekkuseli á Ströndum, þar sem allar bakraddir voru teknar upp dagana 21.-25. júlí. Um bakraddir og dúetta sjá Strandamennirnir Sigurrós G. Þórðardóttir, Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir, Stefán S. Jónsson, Arnar S. Jónsson, María Mjöll Guðmundsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Borgar Þórarinsson og Bjarni Ómar. Það var glatt á hjalla í Brekkuseli þegar ljósmyndari strandir.saudfjarsetur.is leit þar við á dögunum.

Upptökur á ýmsum hljóðfæraleik á eftir að fara fram og öll eftirvinnsla og mun sú vinna fara fram Hornslet studios í ágústmánuði. Um upptökur og upptökustjórn sér Borgar Þórarinsson sem búsettur er í Danmörku og hefur hann dvalist á Hólmavík undanfarið við upptökur.

Upptökur

Bjarni Ómar spilaði nokkur lög af diskinum við opnun Sauðfjárseturs í Sævangi í vor

frettamyndir/2008/580-bjarni-omar.jpg

frettamyndir/2008/580-studio3.jpg

frettamyndir/2008/580-studio1.jpg

Glatt á hjalla við upptökur á bakröddum – ljósm. Jón Jónsson