29/05/2024

Straumhvörf í íslenskum stjórnmálum

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Ákvörðun þingmanna Framsóknarflokksins um upplýsingagjöf þeirra til almennings mun valda straumhvörfum. Til þessa hefur verið litið svo á að þingmaður sé aldrei vanhæfur í störfum sínum, utan þess að í þingsköpum er þingmanni meinað að greiða atkvæði um fjárveitingu til sjálfs sín. Rökin fyrir þessari afstöðu eru einkum að þingmaður sækir umboð sitt til almennings með Alþingiskosingum.

Nú hafa þingmenn Framsóknarflokksins ákveðið í því skyni að auka gagnsæi í íslenskum stjórnmálum að upplýsa um þau tengsl sem hugsanlega geta haft áhrif á störf þingmanna. Veittar eru upplýsingar um eign þingmanns og eftir atvikum maka hans  í atvinnufyrirtækjum, aðild að atvinnustarfsemi, önnur störf, boðsferðir og gjafir.
Ákvörðun þingmanna Framsóknarflokksins er grundvölluð á því að um  árekstra geti verið að ræða í störfum þingmanns milli hans hagsmuna og almannahagsmuna og það er stefnubreytingin. Upplýsingar eru veittar til þess að skýra stöðu þingmanns. Að settum þessum reglum verður það í valdi hvers þingmanns hvort hann telji aðstöðu sína í máli slíka að hagsmunir hans geri hann ótrúverðugan og þá hvernig hann bregst við slíkri aðstöðu. En almenningur hefur upplýsingarnar og mun að sjálfsögðu leggja sitt mat á aðstöðuna og þingmaðurinn og flokkur hans hlýtur að taka mið af því.  Að því mun koma að bent verður á tiltekin tengsl og sagt að þau séu óeðlileg og þá verða menn að svara því hvernig á að bregðast við, á þingmaðurinn að víkja í því máli? Framhaldið hlýtur að verða að stjórnmálaflokkarnir og Alþingi setji reglur eða löggjöf um hæfi og vanhæfi alþingismanna þar sem þessari spurningu verður svarað. Það er óhjákvæmilegt og felst í viðurkenningunni á upplýsingagjöfnni.
Frumkvæðið nauðsynlegt

Frumkvæði framsóknarmanna í þessu máli er lykilatriðið. Án þess hefði ekkert gerst. Sumir flokkar hafa lengi talað um að setja þurfi reglur en það hefur látið á sér standa að hefja verkið þar sem auðveldast er, í eigin garði. Nú munu flokkarnir eða þingmenn þeirra koma hver af öðrum og veita opinberlega sambærilegar upplýsingar og framsóknarþingmenn hafa veitt. Það má rifja upp af þessu tilefni að Framsóknarmaðurinn Þórarinn Þórarinsson varð fyrstur til þess að hreyfa því á Alþingi að setja reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda, þegar hann flutti þingsályktunartillögu um málið ásamt fleirum veturinn 1969 -70.

Áfram frumkvæði framsóknar

Nauðsynlegt er að framsóknarflokkurinn haldi frumkvæðinu. Næsta skref gæti verið að setja reglur um störf ráðherra flokksins. Þau eru annars eðlis en alþingismanna,  ráðherrar fara með framkvæmdavald. Um þá gilda stjórnsýslulög, en þó ekki að öllu leyti. Stjórnsýslulög gilda ekki t.d. um  setningu reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla og auk þess hygg ég að þau lög gildi ekki um ýmis störf ráðherra sem ekki beint heyra undir ráðuneyti hans. T.d. störf í ráðherrahópi sem á að leiða tiltekið mál til lykta eða ná pólitískri niðurstöðu. Ég tel eðlilegt að huga að reglum um slík störf, sem flokkurinn eða þingflokkurinn setti sér og hafa sama tilgang og reglur þær sem þingmenn hafa sett sér.

Sama gildir um fjármál flokkanna. Það mun lítið sem ekkert gerast í því að veita almenningi upplýsingar um þau mál  nema tekið sé frumkvæði. Framsóknarflokkurinn á að mínu mati að gera það og upplýsa um fjármál sín. Byrja á því að veita upplýsingar um heildarkostnað og fjármögnun við kosningabaráttu flokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar.  Traust almennings á stjórnmálaflokkunum og stjórnmálamönnunum er skv. könnunum ekki mikið og engir eiga eins mikið undir því að endurheimta það traust og stjórnmálamennirnir sjálfir. Það fer vel á því að elsti starfandi flokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, fari þar í forystu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins