12/09/2024

strandir.saudfjarsetur.is – til sölu

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is sem hefur flutt fréttir úr Strandasýslu í rúmlega ár er nú til sölu, ef áhugasamir kaupendur sem hyggjast halda rekstri hans áfram finnast. Jón Jónsson ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is og eigandi Sögusmiðjunnar sem rekur vefinn segir að það sé samhljóða skoðun ritstjórnarinnar að vel væri hægt að breyta vefnum í atvinnutækifæri fyrir að minnsta kosti einn mann, ef duglegur einstaklingur sinnti fjármálunum af krafti og gæti jafnframt skrifað fréttir og ritstýrt vefnum. "Með því að stíga skref áfram í þróun vefsins og hugsa hann sem alvöru verkefni sem sinnt yrði af krafti af launuðum starfskrafti myndi atvinnutækifærum á svæðinu fjölga," segir Jón.

"Eins mætti hugsa sér margvísleg hliðarverkefni eins og útgáfu á prentuðu blaði á mánaðar eða hálfsmánaðar fresti, útgáfu á ferðablaði um Strandir og fleira. Til að það sé hægt þarf hins vegar að huga vel að tekjugrunninum og hafa starfsmann í verkefninu," segir Jón. "Líka mætti vel hugsa sér að áhugasamir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki, félög eða stofnanir, myndu stofna félag sem keypti vefinn af Sögusmiðjunni og réði síðan ritstjóra til starfa til að láta á það reyna hvort alvöru rekstur gæti ekki gengið. Vefurinn nær ljómandi vel til fólks og í október síðastliðinum fór heimsóknafjöldi á dag yfir 1000 gesta markið, en meðalfjöldi gesta í þeim mánuði var 1033 á dag. Aðsóknin myndi svo bara aukast með markvissari vinnu. Vefurinn er frábært markaðssetningartæki fyrir Strandir, ferðaþjónustu, sveitarfélögin og mannlífið, ef hann er nýttur af krafti sem slíkur."

Ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is gefur allar nánari upplýsingar um vefinn, uppbyggingu hans og rekstur í síma 690-3180 og netfanginu strandir@strandir.saudfjarsetur.is.